Varað við snjóflóðahættu á Fagradal

Vegagerðin sendi í kvöld frá sér tilkynningu um mögulega snjóflóðahættu á Fagradal í nótt. Hætta er ekki talin í byggð. Gul viðvörun er gengin í gildi á Austurlandi.

Tilkynningin er sú fyrsta sem send er áskrifendum í SMS-kerfi Vegagerðarinnar. Í haust var Fagradal bætt við þá þjónustu en hægt er að skrá símanúmer hjá Vegagerðinni til að fá send skilaboð um mögulega snjóflóðahættu þar.

Í yfirliti frá ofanflóðadeild Veðurstofunnar að segir að eins og er sé ekki talin ástæða til að hafa áhyggjur af aðstæðum í byggð en fylgst sé vel með aðstæðum. Lítill snjór sé almennt í fjöllum.

Klukkan 20:00 í kvöld gekk í gildi gul viðvörun á Austfjörðum sem gildir til klukkan níu á sunnudagskvöld. Um það leyti tók að élja víða á svæðinu og bæta í vind, sem hafði annars verið stilltur í dag.

Gul viðvörun fyrir Austurland að Glettingi tekur gildi klukkan sex í fyrramálið og gildir í sólarhring. Á báðum stöðum er spáð talsverðri snjókomu og vaxandi vindi þegar líður á daginn, með ófærð einkum á fjallvegum.

Vegna Alþingiskosninganna munu Vegagerðin og sveitarfélögin gera það sem hægt er til að halda vegum í byggð opnum þannig kjósendur komist á kjörstað.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.