Allt útlit fyrir verkfall bræðslumanna í kvöld

afl.gifAllt útlit er fyrir að starfsmenn fiskimjölsverksmiðja á Austurlandi leggi niður vinnu klukkan hálf átta. Sáttafundir halda áfram í dag. Segja má að verkfallið sé þegar hafið þar sem loðnuflotinn er kominn til hafnar.

 

Félagsmenn Afls starfsgreinafélags samþykktu vinnustöðvunina með 78% atkvæða í atkvæðagreiðslu í seinustu viku. Samninganefndir bræðslumanna og Samtaka atvinnulífsins sátu á fundi fram á kvöld og nýr fundur hefur verið boðaður í dag.

Segja má að verkfallið sé þegar hafið þar sem stór hluti loðnuveiðiflotans er kominn til hafnar. Aðalsteinn Jónsson landaði tæplega 700 tonnum á Eskifirði í gær og fyrir helgi kom Jón Kjartansson til hafnar með rúmlega 2300 tonn. Beitir NK og Bjarni Ólafsson AK lönduðu á Norðfirði á föstudag.

Um hálfur mánuður er eftir af loðnuvertíðinni en verðmætasti hluti aflans er enn í sjó. Færeysk og norsk verkalýðssambönd hafa lýst yfir stuðningi við íslensku bræðslumennina og útlit er fyrir löndunarbann á íslensk loðnuveiðiskip í löndunum á meðan verkfalli stendur.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar