Ásbjörn hlaut silfurverðlaun á EuroSkills í Búdapest
„Mér þykir mikill heiður að hafa verið valinn til þátttöku í þessari keppni, en hún er mjög góður vettvangur til að sjá hvar maður stendur í greininni í samanburði við besta fólkið frá öðrum löndum,” segir Ásbjörn Eðvaldsson frá Eskifirði, sem hlaut í september silfurverðlaun á EuroSkills í Búdapest, þar sem hann keppti í rafeindavirkjun.Ásbjörn hlaut 710 stig sem er framúrskarandi árangur en alls tóku sex keppendur tóku þátt í greininni. Í fréttatilkynningu frá Verkiðn - Skills Iceland, sem er aðili að World Skills Europe sem heldur EuroSkills, segir að samtökin séu afar stolt af keppenndum sínum sem voru átta að þessu sinni. Um sé að ræða besta árangur á Evrópumóti til þessa. Keppendurnir voru valdir úr hverri grein til að keppa fyrir Íslands hönd og voru voru undir handleiðslu þjálfara í undirbúningsferlinu sem svo fór með þeim á mótið.
Ásbjörn nam rafeindavirkjunina frá Tækniskólanum en er núna á fyrsta ári í rafmagnsverkfræði í Háskóla Íslands. „Þegar ég kláraði rafeindavirkjunina stóð mér til boða að fara að vinna í faginu. Það var í raun mjög heillandi en mig langaði ekki fara út á vinnumarkaðinn alveg strax. Ég ákvað því að skella mér í háskóla og þótti rafmagnsverkfræði rökrétt framhald af rafeindavirkjuninni.”
Keppnin mjög gott „ego boost”
„Þátttaka í keppninni veitir mér ekki endilega mikil tækifæri á Íslandi, en skiptir mái á ferilskránni. Það hjálpar að geta sagst hafa verið næstbestur í einhverju. Eins var mér boðið formlega á heimsmeistarakeppnina í sömu grein, sem ég þurfti því miður að hafna. Keppnin er líka mjög gott „ego boost” ég neita því ekki.”
Verknám er frábær leið sem opnar margar dyr
Ásbjörn segir mikilvægt mál að efla verkiðn. „Það er ennþá litið hornauga á verknám í menntaskólum;
„þangað fara þeir sem eru tossar og þeir sem ekki nenna að læra eitthvað erfitt”. Þessum hugsunarhætti þarf að breyta. Ég tala af reynslu og þetta nám er hvorki erfiðara eða auðveldara en annað nám, einfaldlega allt öðruvísi.
Þegar maður klárar nám í iðngrein standa manni allar dyr opnar. Það er mjög auðvelt að fá vinnu, ekkert mál að fara í áframhaldandi nám og lítið mál að bæta við sig annarri iðngrein. Því er alls ekki eins farið með margar bóknámsgreinar. Verknám er frábær leið ef maður vill opna margar dyr.”