Áskorun að halda út til fjórða maí

Ekkert nýtt covid-19 smit greindist á Austurlandi síðasta sólarhring. Tíu dagar er nú liðnir frá því síðast greindist smit á svæðinu.

Átta smit hafa alls greinst, sex einstaklingar hafa náð bata en tveir eru enn í einangrun. Í sóttkví eru 14 manns, tveimur færri en í gær.

Aðgerðastjórn almannavarnanefndar Austurlands minnir íbúa fjórðungsins á að baráttan við faraldurinn sé langhlaup. Enn eru tvær vikur þar til reglur um samkomubann verða rýmkaðar, mánudaginn 4. maí.

Aðgerðastjórn beinir því til íbúa Austurlands að sýna áfram styrk og samtakamátt og að halda það út að virða þær takmarkanir sem þeir hafi virt í margar vikur. „Við getum og gerum þetta saman,“ segir í tilkynningunni.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar