Ástand lundans ekki gott en einna best á Austurlandi
Ný ítarleg skýrsla um lundastofninn í landinu leiðir í ljós að ástandið er heilt yfir ekki gott. Stofninn dregist saman áratugum saman vegna aukins sjávarhita, fæðuskorts á ungatíma og líkast til vegna þess að veiðar eru sennilega stofnvistfræðilega ósjálfbærar.
Þó staða fuglsins sé hvergi góð er hún þó töluvert jákvæðari á Austurlandi en annars staðar að sögn Erps Hanssonar, forstöðumanns Náttúrustofu Suðurlands, sem sér um eftirlit með lundum á landsvísu. Hugsanleg skýring er að sjávarhiti austanlands er almennt lægri en á öðrum stöðum.
„Við höfum verið að fylgjast með í Papey og Skrúð sem eru svona okkar megin rannsóknarstaðir á Austurlandi. Staðan er ágæt á þeim stöðum og það mælist langmesti þéttleikinn á stöðunum fyrir austan.Það hefur verið góður vöxtur vitum við í Bjarnarey síðastliðin ár en þangað ætlum við að fara innan tíðar og taka stöðuna vonandi með nýrri drónatækni sem gerir okkur kleift að sjá ofan í jörðina sem mun gjörbylta rannsóknum okkar. Kaup á slíku tæki verða reyndar ekki þetta árið en vonandi fljótlega.
Sömuleiðis virðist ganga mjög vel í og við Hafnarhólmann. Þar litamerktum við fjölda fugla 2021 og samkvæmt myndum sem við höfum fengið bendir allt til þess að um 80% þeirra fugla hafi skilað sér aftur nú. Með hliðsjón af að það er svona 7 - 8% dánartíðni almennt árlega þá er það frábær árangur að finna svo marga fugla aftur.“
Áhrif vetarhretsins ekki ljós
Mikið vetrarhret í byrjun júnímánaðar austanlands hafði töluverð áhrif á margar fuglategundir sem hér verpa og þar á meðal lundann. Erpur segir vísbendingar um að veðrið hafi haft neikvæð áhrif en vandasamt sé að meta það fyrr en lengra er liðið á sumarið.
„Við erum búnir að vera á Austurlandi við mælingar í maí og endurtökum þann leik síðla í júlímánuði. Það er kannski helst eftir seinni mælingarnar sem við fáum gögn sem sýna okkur af eða á hvort þetta hret hafði áhrif á þá hve djúp. Að því sögðu þá liggur fyrir að áhrifin á ýmsar aðrar tegundir hafa verið mikil. Í kjölfar þess hurfu til dæmis allar kríur úr Grímsey en þar er jafnan ein stærsta kríubyggð landsins.“
Ný skýrsla sérfræðinga
Skýrslan sem vitnað er til í inngangi er mjög ítarleg stofnmatsskýrsla en sú var unnin af Erpi Hansen hjá Náttúrustofu Suðurlands í samvinnu við tvo þekkta erlenda sérfræðinga sem rýndu gögn héðan fleiri áratugi aftur í tímann.
Það er niðurstaðan sú að það séu miðlungs til háar líkur á að lundaveiðar síðasta áratug hafi stuðlað að stofnfækkun og svo verði áfram ef veiðar verða áfram með sama hætti. Varpa skýrsluhöfundar fram þeirri spurningu fram hvort best fari á að hætta veiðum alfarið á tímabilum þegar viðkoma er lág eða halda áfram hóflegri veiðum.
Þeir komast einnig að því að mild ofveiði á lundanum hafi líkast til átt sér stað allar götur frá nítjándu öld. Það skýri að hluta til langtíma fækkun í stofninum en ofan á það bætast við tímabil með óhagstæðum umhverfisskilyrðum.
Gæta skal hófs
Fyrir sitt leyti hefur umhverfis-, orku- og loftlagsráðuneytið brugðist við skýrslunni með þeim hætti að beina þeim tilmælum til veiðimanna og veitingastaða að gæta hófs við veiðar og sölu afurða. Aðspurður um þau viðbrögð segir Erpur að sjálfur hefði hann viljað sjá stjórnvöld stíga fastar til jarðar. Til að mynda mætti byrja á að banna alfarið veiðar á þeim eyjum og klettum sem tilheyra ríkinu.