Atkvæði Austfirðinga farin í loftið - Myndir
Atkvæði Austfirðinga eru loks á leið norður til Akureyrar. Flugvél með þeim innanborðs hóf sig á loft frá Egilsstöðum klukkan tíu mínútur yfir tvö í nótt.Þrátt fyrir færðin færi versnandi á Austfjörðum með kvöldinu gekk vel að safna saman atkvæðum. Kjörgögn frá Fjarðabyggð komu til Egilsstaða um klukkan kortér í eitt í nótt. Snjóplógur fór á undan formanni kjörstjórnar í sveitarfélaginu yfir Fagradal. Þeim sóttist ferðin nokkuð vel.
Kjörgögn frá Djúpavogi og Seyðisfirði komu nánast samtímis í Egilsstaði um klukkan 22:45 í gærkvöldi. Björgunarsveitir fluttu kjörgögnin þangað. Fyrir voru á Egilsstöðum kjörgögn frá Egilsstöðum og úr Fljótsdal.
Flugvélin lenti á Egilsstöðum rúmlega hálf tvö í nótt. Flugskilyrði voru ágæt nema að ókyrrð var þegar vélin tók að lækka sig inn til lendingar. Hún fór sem fyrr segir aftur í loftið um klukkan 2:10. Áætlað er að hún verði um klukkutíma á leiðinni norður og lendi þar um eða upp úr klukkan þrjú. Atkvæði frá Austurlandi hafa ekki verið inni í tölum úr kjördæminu til þessa.