„Auka par af höndum“

Hollvinasamtök utanspítalaþjónustu í Fjarðabyggð bauð vinum og velunnurum til formlegrar móttöku á tveimur hjartahnoðtækjum sem þau hafa safnað fyrir að undanförnu. Andvirði tækjanna er tæpar fimm milljónir króna.



Það voru meðlimir í Slökkviliði Fjarðabyggðar sem stofnuðu Hollvinasamtök utanspítalaþjónustu í Fjarðabyggð (HUF) fyrir ári. Ingólfur Birgir Bragason er einn þeirra.

„Samtökin eru eingöngu hugsuð sem utanumhald hverskyns safnana en eins og við vitum er mikil þörf fyrir fullt af tækjum og tólum í þessu starfi sem er alltaf fjármagn fyrir. Við fórum af stað með söfnun fyrir þessum tveimur tækjum sem nú eru bæði komin í hús, annað verður í Neskaupstað en hitt hér á Reyðarfirði.

Við fengum ómetanlega styrki sem létu drauminn rætast en hvort tæki kostar um 2,4 milljónir. Þau fyrirtæki sem að þessu komu eru Síldarvinnslan í Neskaupstað, SÚN, Olíusamlag útverksmanna í Neskaupstað, Ingólfur málari, Sparisjóðurinn í Neskaupstað, Pegasus, Alcoa, Eskja, Tandraberg, Eimskip, Egersund, Landsbankinn, Olís og Sesam brauðhús. Flytjandi flutti tækin fyrir okkur austur og Deloitte hjálpaði okkur að stofna samtökin og heldur utan um allt bókhald, okkur að kostnaðarlausu.“


Einfalt í notkun

Lucas hjartahnoðtækið spennist utan um sjúklinginn og hnoðar hann með tjakki sem gengur niður á brjóstið og veitir þannig jafnt og stöðugt hjartahnoð sem getur aukið lífslíkur sjúklings sem þarf að flytja milli staða, oft á tíðum við erfiðar aðstæður.

„Það veit hver sá sem reynt hefur hjartahnoð, hvort sem er á lifandi manneskju eða dúkku, að það gerir maður ekki í langan tíma án þess að þreytast en þá er hætta á að maður fari að gera það illa. Einnig er alls ekki hægt að tryggja hér fyrir austan að við séum fleiri en tveir sem förum í útkall og ef þarf að flytja sjúkling með hraði langa leið þá liggur það í augum uppi að einn þarf að keyra bílinn og þá aðeins einn maður eftir til að hnoða og sinna öndunarvegi. Það er því ómetanlegt að fá þessi tæki, sem segja má að séu auka par af höndum, til þess að sinna sjúklingi þar til hann kemst undir læknishendur.“

Ingólfur Birgir segir að tækið sé einfalt í notkun. „Það má segja að þetta sé gert fyrir okkur slökkviliðsmenn en oft er því hent fram í gríni að það þýði ekkert að vera með neitt nema einfalt og litamerkt fyrir okkur, sem þetta tæki er, það getur ekki klikkað.“



„Þið stökkvið út og við inn“

Ingólfur Birgir segir það afar ánægjulegt að bæði tækin séu komin í hús og er strax kominn með hugmynd að næsta verkefni. „Við viljum koma á framfæri gríðarlegu þakklæti til allra sem að þessu komu, án okkar hollvina hefði þetta ekki verið gerlegt.

Það sem ég vildi fá inn næst er mun ódýrara tæki en þó afar nauðsynlegt. Það er sprautudæla sem kostar um 400 þúsund krónur. Stundum þurfum við að flytja sjúklinga í flug og þá þarf oft að gefa lyf sem heimta nákvæma dælingu.“

Ingólfur Birgir er ánægður í starfi. „Ég vildi að ég hefði uppgötvað þetta strax fyrir 20 árum í stað þess að læra kerfisfræði en þetta starf er töluvert meira gefandi en það. Kannanir sýna að fólk ber mest traust til slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna en eins og sagt er: þið stökkvið út og við inn. Það er bara þannig.“

Ljósmyndin var tekin í sumar þegar Snorri Þórisson, framkvæmastjóri Pegasus afhenti Ingólfi Birgi 500 þúsund króna styrk til kaupa á hjartahnoðtækinu. 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.