Aukin fjárframlög auk ívilnana eina leiðin að tryggja góða heilbrigðisþjónustu á Austurlandi

Hvernig má tryggja að í Norðausturkjördæmi sé skýrt aðgengi öllum stundum að sjálfsagðri heilbrigðisþjónustu á borð við fæðingarþjónustu, bráðagreiningu, endurhæfingu og öðrum mikilvægum þáttum heilbrigðismála?

Þessari spurningu var varpað til oddvita þeirra tíu framboða sem bjóða fram til Alþingis fyrir Norðausturkjördæmi á framboðsfundi Austurfréttar og Austurgluggans í síðustu viku.

Sem kunnugt er hefur verið erfitt árum saman að fá lækna og lært heilbrigðisstarfsfólk til starfa og þar kannski sérstaklega á Austurlandi en einnig borið á slíkum vandamálum á Akureyri og nágrenni þar sem fólksfjöldi er þó mun meiri. Það er meginorsök þess að biðlistar geta verið langir eða skurðstofur verða að loka um tíma eins og raunin hefur verið austanlands.

Pólitískan vilja þarf til

Svör oddvitana voru mikið til á sömu nótum hvað málefnið varðaði. Allir voru þeir sammála um að bæta þurfi meira fjármagni í heilbrigðismál á landsbyggðinni. Logi Einarsson, Samfylkingu, benti á að ríkið sé aðeins að vera 7,6% af vergri landsframleiðslu til heilbrigðismál sem sé heilu prósentustigi fyrir neðan nágrannalönd okkar til austurs. Hann benti einnig á að einungis 5% nemenda í læknisfræði við Háskóla Íslands koma af landsbyggðinni og það hefði áhrif því landsbyggðarfólk væri líklegra til að snúa aftur en hinir.

Ingibjörg Ísaksen, Framsóknarflokki, benti að árangur hefði náðst hjá fráfarandi stjórnvöldum. Til dæmis hefðu loks náðst samningar við sérfræðilækna sem hefði verið lausir um árabil. Þá hefðu loks náðst samningar um augnlæknaþjónustu austanlands næstu árin.  Sindri Geir Óskarsson úr Vinstri grænum, taldi reyndar að samningarnir við sérfræðilæknana hefðu ekki tekið mið af þörfum og hagsmunum íbúa heldur fyrst og fremst læknanna sjálfra.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson sagði stöðuna afleiðingu áratugalangrar samþjöppunar á höfuðborgarsvæðinu og ekkert tillit tekið til íbúa fjarri því svæði í neinu tilliti. Fletta þyrfti öllu þessu til baka því sá mikli umframkostnaður sem félli á íbúa landsbyggðarinnar vegna þessa hefði aldrei verið tekinn með í reikninginn.

„Það gleymdist að reikna heildardæmið eins og svo oft áður. Það gleymdist að reikna kostnaðinn fyrir sjúklinga af ferðalögum, vinnutapi, gistingu. Það gleymdist að reikna með að fólk er síður tilbúið að flytja á staðina ef það er ekki trygg heilbrigðisþjónusta.“

Hvatar, hvatar og hvatar

Oddvitarnir voru einnig sammála um að bregðast þyrfti við eilífum mönnunarvandi með skýrum ívilnunum til handa því heilbrigðismenntaða fólki sem áhuga hefði að flytjast út á land

Sigurjón Þórðarson, Flokki fólksins, Gunnar Viðar, Lýðræðisflokknum, Ingvar Þóroddsson, Viðreisn og Jens Garðar Helgason, Sjálfstæðisflokki vildu allir skoða í kjölinn mögulega ívilnanir til að lokka menntað heilbrigðisstarfsfólk út á land til starfa. Það væri stórt verkefni og hluti af þeirri mynd væri að efla byggðirnar sjálfar á allan hátt. Til þess væru nokkrar leiðir eins og Jens Garðar kom inn á:

„Þurfum að tryggja meira fjármagn, styðja við heilbrigðisstofnanirnar okkar hvort sem það er sjúkrahúsið í Neskaupstað eða HSA í heild. Það verður að byggja hvata til að fá fólk hingað og við verðum að gera það með skattalegum hvötum. Við þurfum að horfa til Skandinavía og sjá hvernig þeir hafa tekið til sín heilbrigðisstarfsfólk með því til dæmis að taka niður námslánin, skattaívilnunum og öðru. Þetta er ekki bara bundið við Austurland heldur allar landsbyggðirnar og meira að segja á Akureyri gengur erfiðlega að fá lækna til að flytja og setjast þar að.“

Þorsteinn Bergsson, Sósíalistaflokki, sagði ekki koma til greina að hafa niðurskurðarhnífinn á lofti lengur varðandi heilbrigðismál á landsbyggðinni. Hann vildi þó fyrst og fremst samráð við sérfræðinga og heilbrigðisstarfsfólk á svæðinu til að fá fram bestu hugsanlegu leiðirnar út úr vandanum.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.