Aukinn fyrirsjáanleiki skapar þægilegra leikskólastarf í Múlaþingi

Betri vinnutími - Betri líðan er heiti verkefnis sem fræðslumálayfirvöld í Múlaþingi hafa unnið að í töluverðan tíma og beinist að því að gera allt leikskólastarf fyrirsjáanlegra og þægilegra fyrir börnin, foreldra og starfsfólk skólanna en áður var raunin.

Sérstakur bæklingur vegna þessa var borin í hús fyrir skömmu þar sem útskýrt hver hugmyndin sé með breyttum reglum en mikið samráð var við foreldra barna í leikskólum vegna þessa verkefnis sem í raun hefur verið að stórum hluta í prufukeyrslu síðasta skólaveturinn. Næsta veturinn verður unnið að fullu með nýja kerfið en ekki útilokað að frekari breytingar verði gerðar til batnaðar í framtíðinni.

Að sögn Sigurbjargar Hvannar Kristjánsdóttir, fræðslustjóra Múlaþings, er verið að reyna að koma þannig lag á hlutina að að börnin, foreldrar og starfsfólk skólanna geti gengið að öllu vísu í leikskólastarfinu.

„Breytingarnar eru tilkomnar sökum þess að menntamálaráðuneytið gerði á sínum tíma breytingar á leyfisveitingum til kennara sem varð til þess að margir leikskólakennarar fóru að leita hófanna í grunnskólunum og vöntun varð á kennurum í leikskólana. Svo bættist við þessi stytting vinnuvikunnar í kjölfarið svo það varð nokkuð flókið að haga málum þannig að allir væru sáttir. Með þessu erum við að reyna að koma til móts við öll sjónarmið og gera starfið betra og þægilegra fyrir alla sem að koma.“

Breytingarnar í grófu máli þýða til dæmis að nú opna og loka allir leikskólar Múlaþings á sama tíma vegna sumarfría ef frá er talinn leikskólinn í Brúarási sem fylgir skóladagatali grunnskólans.

Eftirleiðis verður því enginn vafi á hvenær leikskólarnir loka vegna sumarfría eða opna aftur eftir sumarfrí. Aukinheldur er nú í boði fyrir foreldra að fá gjaldfrjálst leyfi kringum lengri frí kringum páska, jól eða almenn vetrarfrí. Kerfið gagnast jafnframt starfsfólki skólanna því nú verður meiri fyrirsjáanleiki á fjölda barna og þar með hægt að skipuleggja starfsemina betur. Þá munu starfsmenn skólanna eftirleiðis ekki þurfa að mæta á fundi utan vinnutíma heldur fara þeir alltaf fram samhliða hefðbundnum vinnudegi. Á þessari síðu má finna nákvæmari upplýsingar um hlutina næsta skólaár.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar