Austfirðingar brýndir til dáða með smitvarnavísu
Ekkert nýtt smit Covid-19 smit hefur greinst á Austurlandi frá 9. apríl. Aðgerðastjórn almannavarnanefndar Austurlands minnir íbúa þó sem fyrr á smitvarnir.Aðgerðastjórnin hefur frá því að faraldurinn komst á skrið í fjórðungnum sent frá sér reglulegar tilkynningar um stöðuna í baráttunni við faraldurinn og áminningar til íbúa um sóttvarnir.
Ekkert nýtt smit hefur nú greinst í rúmar sex vikur. Ekki er vitað um neitt virkt smit en samkvæmt tölum frá Covid.is eru 26 í sóttkví.
Þótt faraldurinn hafi rénað verulega og allra síðustu vikur verið slakað á reglum um smitvarnir á landsvísu heldur aðgerðastjórnin áfram að hvetja Austfirðinga til dáða og minna á að hver og einn beri ábyrgð á sínum eigin smitvörnum.
Að þessu sinni gerir hún það með vísu eftir Stefán Bragason, hagyrðing og bæjarritara Fljótsdalshéraðs.
Í handarkrikann hósta skalt,
hreinar lúkur spritt´ ávallt.
Fólki í burtu frá þér halt
og farðu í rúmið, sé þér kalt.