Austurbrú kaupir SparAustur
Austurbrú hefur fest kaup á smáforritinu SparAustur og ráðið Auðun Braga Kjartansson, frumkvöðul og höfund hugverksins, til starfa svo vinna megi áfram að þróun og innleiðingu þess.Þetta kemur fram í tilkynningu. Forritinu var hleypt af stokkunum í byrjun maí en það veitir notendum vildarkjör hjá veitingastöðum, verslunum og þjónustuaðilum á Austurlandi, með það að markmiði að auka sýnileika fyrirtækja á Austurlandi og koma réttum upplýsingum hratt og örugglega til viðskiptavina.
Jóna Árný Þórðardóttir, framkvæmdastjóri Austurbrúar, segir kaupin á SparAustur og ráðningu Auðuns mjög heppilega. Það sé sumar og fjöldi ferðamanna í landshlutanum og mikilvægt að upplýsingagjöf til þeirra - og annarra íbúa - sé hraðvirk og traust:
„Það skiptir máli fyrir fyrirtækin á svæðinu að koma upplýsingum á framfæri með öllum mögulegum leiðum,“ segir Jóna Árný. „Vonandi mun fjöldi Íslendinga leggja leið sína austur í sumar og þá skiptir máli að þeir fái allar þær upplýsingar sem þeir þurfa til að njóta lífsins á Austurlandi. Og þetta gildir að sjálfsögðu um alla íbúa Austurlands sem vonandi verða duglegir að ferðast um fjórðunginn í sumar.“
Forritið er frítt bæði fyrir notendur og samstarfsaðila Austurbrúar sem eru rúmlega eitt hundrað talsins. Í tilkynningu segir að SparAustur sé góð viðbót við þau verkfæri sem Austurbrú hafi þróað fyrir samstarfsaðila sína.
Auðun Bragi Kjartansson, stofnandi SparAustur.