Austurför: Nýtt fyrirtæki í ferðaþjónustu

Austurför er nýtt ferðaþjónustufyrirtæki í eigu Heiðar Vigfúsdóttir sem segir hugmyndina að fyrirtækinu til komna vegna reynslu sinnar í ferðaþjónustu. 

austurfor_heidur_vigfusdottir.jpgHeiður segir uppsprettuna þó styrk sem Ferðarskrifstofa Austurlands og Fjarðabyggð sóttu um í Vaxtarsamning Austurlands fyrir verkefni sem snýst um að efla ferðaþjónustuna á Austurlandi yfir vetrartímann.  Skapa þannig fleiri störf og gera fleiri aðilum á svæðinu kleift að lifa af ferðaþjónustu allan ársins hring.  Til þess að þetta geti gerst þarf að vera framkvæmdaraðili að verkefninu sem verður unnið í samvinnu við ferða- og menningarmálafulltrúa Fjarðarbyggðar. 

Langt í frá skammtímaverkefni.

Heiður var hins vegar fljót að sjá að þetta er langt frá því að vera skammtímaverkefni og nauðsynlegt að hægt verði að stýra verkefninu áfram þegar styrkurinn er uppurinn.  Heiður ákvað því að leita í reynslubunka sinn og stýra verkefninu á svipaðan hátt og fyrirtæki sem hún vann hjá í Reykjavík sem verkefna- og fjármálastjóri.   Austurför mun þannig fara skrefinu lengra en ferðaskrifstofur almennt gera og veita mun umfangsmeiri og persónulegri þjónustu við viðskiptavininn.  Þannig verða öll samskipti auðveldari þar sem viðskiptavinurinn á aðallega í samskiptum við Austurför þó að afþreyingarpakkanum komi margir ferðaþjónustuaðilar.  Markmið Heiðar er því að nýta þessa reynslu sína og þekkingu en ekki síður tengslanet sitt til að markaðssetja Austurland og ná hingað stórum sem smáum hópum.


Nýtir menntun sína og starfsreynslu til að kynna Austurland.

Heiður sér Austurland sem frábæran áfangastað til dæmis fyrir fyrirtæki sem vilja koma hingað annað hvort í árshátíðarferð, fyrir fundi og ráðstefnuhald í bland við hvataferðir og hópefli fyrir starfsmenn sína.  ,,Hér höfum við svo mikla fjölbreytni að auðvelt verður að sníða hverja ferð fyrir sig og aðlaga hana að þörfum viðskiptavinarins og mæta þannig kröfum hans og óskum hvað varðar tilgang ferðarinnar, verð og afþreyingu“. 
Heiður  er viðskiptafræðingur með mastersgráðu í alþjóðasamskiptum og framhaldsmenntun í fjármálum.  Hún mun því  bæði nýta menntun sína og starfsreynslu ásamt reynslu sem hún hefur öðlast á ferðalögum sínum um heiminn en hún hef farið víða og staldrað við í lengri eða skemmri tíma á ólíkum stöðum.  Heiður bjó til að mynda í um það bil þrjú ár á Spáni þar sem hún starfaði meðal annars sem skíðakennari í fjallgarði sem heitir Sierra Nevada á Suður-Spáni.  Þar hófst áhugi hennar á að skapa og starfa í ferðaþjónustugeiranum.  Frá Spáni ferðaðist hún til Kúbu þar sem hún dvaldi í mánuð, fór svo þaðan til Mexikó þar sem hún dvaldi á annan mánuð svo eitthvað sé nefnt.  Eftir ársdvöl í Ástralíu í framhaldsnámi ferðuðust Heiður og maður hennar um allt Nýja Sjáland og stóran hluta Haiwaii áður en þau fluttust á Fljótsdalshérað en maður Heiðar, Guðmundur Magni Bjarnason verkfræðingur hjá Alcoa, er fæddur og uppalinn á Egilsstöðum.  Heiður var þá þegar búin að kynnast Austurlandinu ágætlega þangað sem hún á rætur en hún er fædd á Norðfirði og bjó þar fyrstu fjögur ár ævi sinnar, þá flutti fjölskyldan til Húsavíkur og þaðan svo að lokum til Reykjavíkur.  „Eftir að við höfðum komið okkur fyrir á Egilsstöðum eignaðist ég fljótlega fyrsta barn okkar hjóna og er það því fyrst nú sem ég hef haft tíma til að fara að vinna í þessum málum“.  

Vannýtt tækifæri í ferðaþjónustu, réttur tími til að hefjast handa.

Heiður tók fljótlega eftir því að hér eystra voru vannýtt tækifæri í ferðaþjónustu, bæði fyrir ferðamanninn en ekki síður vannýttir möguleikar á fleiri störfum í ferðaþjónustu.   Heiður telur að nú sé klárlega rétti tíminn til að hefjast handa fyrir næsta vetur og ráðstefnan á Hótel Héraði þann 23. febrúar síðastliðinn um ferðamennsku og vetraríþróttir marki nokkurskonar upphaf af þessari starfsemi sinni.  Á ráðstefnunni kynnti Heiður Austurför og biðlaði til þjónustuaðila á svæðinu að setja sig í samband við sig.  Nú þegar er Heiður komin í samband við marga á svæðinu og fagnar þeim góðu viðbrögðum sem Austurför hefur fengið. Hún vill hins vegar fá að  heyra frá öllum ferðaþjónustuaðilum í fjórðungnum, þannig að það myndist góð tengsl og hún komist strax í samband við viðeigandi tengiaðila.  Heiður þarf að vita að þjónustan sé eða verði til staðar til að hafa möguleikann á að selja hana.  ,,Það er ennþá góður tími til að undirbúa þetta vel svo að næsti vetur fari vel af stað og nú er því rétti tíminn til að kynna sig.“

Vill beisla möguleikana og sjá Austurland blómstra.

Heiður vil sjá Austurland blómstra eins og Akureyri og nágrenni hefur gert á undanförnum árum í vetrarferðamennsku því hún telur að hér séu langt í frá færri möguleikar og nefnir þessi frábæru skíðasvæði sem við höfum, spennandi veiðimöguleika, ómetanlegar náttúruperlur og tækifæri, góð hótel, gistiheimili, sundlaugar og veitingastaði svo fátt eitt sé nefnt.  Það þarf bara að beisla möguleikana og koma þeim í það form að hægt sé að selja þá.  Heiður vill því enn á ný hvetja aðila á svæðinu að setja sig í samband í gegnum netfangið This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it., kynna þjónustu sína og verð en hún telur að þetta sé það sem hafi skort á svæðinu og muni hjálpa til við að rífa vetrarferðaþjónustuna upp og gera fleiri aðilum kleift að lifa af ferðaþjónustu allan ársins hring.  Í upphafi mun Austurför verða rekið á kennitölu eigandans sem mun fá að nýta sér ferðaskrifstofuleyfi hjá Ferðaskrifstofu Austurlands þar sem í byrjun verður reksturinn það einfaldur að það borgar sig ekki að setja hann í flókið rekstrarform.  Hins vegar er til einkahlutafélag sem ber nafnið Austurför og verður nýtt þegar verkefnið hefur stækkað og undið upp á sig

Ferðaþjónustuaðilarnir verða að spila með.


Heiður telur að Austurför geti breytt svæðinu í tengslum við ferðaþjónustu.  Til þess að það gerist er ekki nóg að stóla á reynslu og þekkingu þess sem því stýrir.  Ferðaþjónustuaðilar á svæðinu verða að spila með, taka þátt og láta hendur standa fram úr ermum því hugmyndir sem ekki eru settar í framkvæmd er ekki hægt að selja.  Heiður hvetur því aðila á Austurlandi til að grípa boltann sem hún telur sig nú hafa kastað út í fjórðunginn með þessari kynningu á fyrirtæki sínu Austurför.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar