Austurland greiðir hæstu veiðigjöldin

Austurland greiðir hæstu veiðigjöld einstakra landshluta, 23% af heildinni eða um 2,33 milljarða króna fyrir árið 2023. Þetta er annað árið í röð sem hæstu veiðigjöldin koma úr Austfirðingafjórðungi.

Þetta kemur fram í gögnum Fiskistofu sem heldur utan um veiðigjöldin. Greitt er ákveðið krónugjald af hverju kílói óslægs afla. Skatturinn á að tryggja þjóðinni sanngjarna hlutdeild í auðlind hafsins og mæta kostnaði ríkisins vegna fiskveiða og vinnslu.

Af einstökum útgerðum á Austurlandi greiðir Síldarvinnslan í Neskaupstað mest, rúmar 910 milljónir, næst mest allra útgerða í landinu. Skinney Þinganes á Höfn er inni í austfirsku tölunni en fyrirtækið er í fimmta sæti á landsvísu með 787,3 milljónir. Eskja á Eskifirði er tveimur sætum neðar með 391 milljón en Loðnuvinnslan á Fáskrúðsfirði með 227 milljónir.

Í öðru sæti landsvæða er höfuðborgarsvæðið með 17,7% eða 1,8 milljarða. Stærstan hluta þess greiðir Brim, sem greiðir mest allra útgerða í landinu, eða 1,1 milljarð. Brim er með umfangsmikla starfsemi á Vopnafirði. Suðurland greiðir 17,3% eða 1,76 milljarða, sem byggist á útgerðum í Vestmannaeyjum.

Samtals greiddu útgerðir landsins 10,1 milljarð í veiðigjald í fyrra, sem er hæsta upphæð frá árinu 2018 þegar 11,3 milljarðar fengust í veiðigjöld. Þetta er annað árið í röð sem Austurland greiðir mest í veiðigjöld. Í fyrra námu greiðslurnar af svæðinu 1,55 milljörðum af samtals 7,9 milljörðum eða 19,6%.

Útlit er fyrir að veiðigjöldin verði talsvert lægri í ár þar sem loðnuvertíðin í vetur brást.

Lengri útgáfa birtist í Austurglugganum. Hægt er að panta áskrift hér.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar