Bæjarstjórn Fjarðabyggðar gert að fjalla aftur um breytingar á skólahaldi eftir samráð
Mennta- og barnamálaráðuneytið telur sveitarfélagið Fjarðabyggð hafa brotið lög með að bera áformaðar breytingar á skólastofnunum sveitarfélagsins ekki undir skólaráð í grunnskólum eða foreldraráð í leikskólum. Bæjarstjórn þarf því að taka málið fyrir aftur.Bæjarstjórn ákvað á aukafundi í lok febrúar að sameina skóla sína eftir skólastigum frá og með næsta skólaári. Um leið stóð til að segja upp aðstoðarskólastjórum og deildarstjórum sérkennslu en ráða verkefnastjóra, sem og nýtt fagfólk inn til skólaþjónustu sveitarfélagsins.
Meirihlutinn klofnaði í málinu sem aftur leiddi til meirihlutaslita. Áformunum var strax mótmælt og í byrjun mars óskaði Kennarasamband Íslands álits ráðuneytis á málinu. Úrskurður þess kom í gær.
Niðurstaða ráðuneytisins er að Fjarðabyggð hafi ekki farið að lögum sem kveða á um að skólaráð í grunnskólum og foreldraráð í leikskólum skuli veita umsagnir um meiriháttar breytingar á skólahaldi áður en endanleg ákvörðun er tekin.
Grundvallarbreytingar á stjórnun og skipulagi
Í andsvari sínu til ráðuneytisins hélt Fjarðabyggð því fram að breytingarnar væru minniháttar þar sem þær hefðu aðeins áhrif á fá stöðugildi innan hvers skóla. Ráðuneytið segir breytingarnar ekki snúast um stöðugildi heldur feli þær í sér grundvallarbreytingar á stjórnun og samstarfi skólanna. Þá séu reglurnar um samráð við ráðin í skólunum ófrávíkjanlegar, sama hversu víðtækt samráðið hafi verið að öðru leyti. Þess vegna hafi átt að bera áformin undir ráðin.
Málið var sett í salt eftir kvörtunina og því hefur engum enn verið sagt upp vegna áformanna. Þar sem breytingarnar eru ekki komnar til framkvæmda vill ráðuneytið að málið verði tekið til nýrrar meðferðar í sveitarstjórn að fengnum umsögnum ráðanna. Þá er bætt við að mikilvægt sé að skólastjórar komi að samráðinu.
Áformað skipulag í lagi
Ráðuneytið gerir engar athugasemdir við breytingarnar sem slíkar og segir að það fyrirkomulag sem kynnt hafi verið standast lög.
Kennarasambandið taldi einnig að lög um grunn- og leikskóla fælu það í sér að skólastjórnendur ákveddu starfstitla og verksvið millistjórnenda. Því mótmæli Fjarðabyggð á þeim forsendum að það sem stjórnvald og rekstraraðili skólanna réði skipulagi sinna stofnana.
Um þetta atriði segir í úrskurði ráðuneytisins að það leggi áherslu að hugað verði að þessum ákvæðum og eingöngu sá aðili sem sé til þess bær um að taka ákvarðanir um starfssambönd starfsfólks skóla í sveitarfélaginu geri það.
Kennarasambandið taldi einnig óheimilt að ráða verkefnisstjóra í aðstoðarskólastjóra þar sem kjarasamningar geri ekki ráð fyrir að verkefnastjórar hafi mannforráð. Ráðuneytið segir það hvorki sitt hlutverk að hafa eftirlit með kjarasamningum né ákvörðunum sveitarfélaga í starfsmannamálum.