Bæjarstjórnarfundir á flakki

Bæjarstjórn Fjarðabyggðar hefur ákveðið að færa fundi sína að hluta til út í einstaka bæjarkjarna í vetur og sá fyrsti var haldinn á Stöðvarfirði í síðustu viku.

 


Það var Jón Björn Hákonarson, forseti bæjarstjórnar, sem átti hugmyndina að því að fara með fundina milli staða.

„Þetta verður tilraun í vetur, en við höfum þó annað slagið verið með fundi út í hverfunum, þá í tengslum við íbúafundi, en þó að langmestu á bæjarstjórnarskrifstofunni á Reyðarfirði þar sem þeim hefur verið sjónvarpað beint á netinu.

Ég tel þetta mikilvægt og góða leið til þess að færa bæjarmálin nær fólkinu og auka samheldni. Það er líka gott fyrir okkur bæjarfulltrúana að heimsækja öll hverfi og taka púlsinn á hverjum stað. Nefndirnar hafa verið duglegar að flakka á milli og hafa verið ánægðar með það fyrirkomulag. Við ætlum í það minnsta að prófa þetta í vetur, að fara með annan hvern fund út, sem er þá einu sinni í mánuði.“

Jón Björn segir að vissulega sé lítil reynsla komin á fyrirkomulagið. „Það litla sem ég hef heyrt er bara jákvætt og fólk er ánægt. Allir bæjrarstjórnarfundir eru opnir og því geta íbúar komið á fund í sínu hverfi og viljum við hvetja þá til þess. Þetta verður svo skoðað og endurmetið um áramót en ég er bjartsýnn á framhaldið.“


Ljósmynd/Gunnar Jónsson: Frá vinstri: Páll Björgvin Guðmundsson, Elvar Jónsson, Eydís Ásbjörnsdóttir, Svanhvít Yngvadóttir, Hulda Sigrún Guðmundsdóttir, Valdimar O. Hermannsson, Dýrunn Pála Skaftadóttir og Esther Ösp Gunnarsdóttir.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.