Bændur á Héraði vilja komast í heitt vatn fyrir kornþurrkun

Nokkrir kornbændur á Héraði hafa farið þess á leit við HEF-veitur að komast í nægilegt heitt vatn til að geta keyrt kornþurrkara sem til stendur að kaupa. Vel var tekið í þá málaleitan þeirra.

Einir sjö til átta hópar á Héraði stunda kornrækt í einhverjum mæli þó fleiri en færri geri það til heimabrúks fremur til sölu. Nýr kornþurrkari gæti breytt þeirri stöðu og auðveldað þeim bændum sem það vilja að selja sitt og þar með hugsanlega fjölga kornræktendum á svæðinu.

Sem hluti af þessu ferli sótti Búnaðarfélag Eiðaþinghár um ríkisstyrk til þessa verkefnis og fengust þar tæpar 15 milljónir króna en stjórnvöld hafa ákveðið að styrkja kornrækt í landinu sérstaklega á næstu fjórum árum. Var fyrsta úthlutun vegna átaksins fyrir skömmu.

Ingvar Friðriksson, bóndi að Steinholti, segir að sjá megi fyrir sér að fleiri hefji kornræktun eða svæðin undir slíka ræktun stækki ef góður þurrkari sé aðgengilegur á svæðinu og segir líklegra en ekki að ráðist verði í slíka fjárfestingu síðar á árinu. En fleira þarf að hafa í huga.

„Við erum auðvitað með ákveðnar staðsetningar í huga en hér kemur til að við viljum vera sem næst heitu vatni því við viljum helst keyra slíkan þurrkara með þeim hætti en með olíu. Það merkir staðsetningu sem næst Urriðavatninu eða þar í kring en HEF-veitur eru einmitt að aðstoða okkur við að finna hentugastan staðinn. Sjálf þurrkununin þýðir að þá getum við farið að blanda korninu saman við annað þurrfóður og þannig aukið nokkuð verðmætin ef verið er að selja á annað borð.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar