Beina til foreldra að brýna samskiptareglur fyrir börnum sínum

Almannavarnir á Austurlandi hvetja foreldra og forráðamenn barna á grunnskólaaldri að brýna fyrir börnum sínum reglur um samskiptafjarlægð. Yfirlögregluþjónn segir fulla ástæðu til að minna á að engar tilslakanir hafa enn tekið gildi.

„Vissulega virðist sem los hafi komið á fólk eftir að tilkynnt var um væntanlegar tilslakanir. Það hafa verið einhverjar samkomur á íþróttavöllum og þess háttar sem ekki eru í samræmi við reglur.

Við höfum enga ástæðu til að ætla annað en fólk fylgi þeim leiðbeiningum sem settar hafa verið og vonum að það sé rétt mat. Okkur þykir samt rétt að árétta að 4. maí er ekki runninn upp enn,“ segir Kristján Ólafur Guðnason, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á Austurlandi.

Í tilkynningu frá aðgerðastjórn almannavarnanefndar Austurlands frá í dag er því beint til foreldra og forráðamanna barna á grunnskólaaldri að kynna sér vel útfærslu skóla sinna á tilmælum sóttvarnayfirvalda í skólastarfi.

Þar er meðal annars lögð áherslu á að skipta nemendum upp í ákveðna hópa og einstaklingar blandist alls ekki þar á milli. Þessar takmarkanir gilda líka utan skolatíma, sem þýðir að vinir úr mismunandi hópum geta ekki hist til að leika sér saman. Þá er lögð áhersla á að halda tveggja metra fjarlægð milli einstaklinga.

Sóttvarnalæknir sagði á upplýsingafundi Almannavarna í dag að rannsóknir sýndu að covid-19 veiran hefði mun minni áhrif á börn undir 12 ára aldri en aðra einstaklinga. Þá staðfesti hann að unnið væri að nákvæmari reglum um skóla- og íþróttastarf þegar tilslakanir á samkomubanni taka gildi 4. maí.

„Við bíðum eins og aðrir eftir nýjum leiðbeiningum en meðan engu er breytt skiptir máli að fylgja þeim reglum sem í gildi eru. Ástandið er enn viðkvæmt, þess vegna beinum við því til foreldra og forráðamanna að skýra reglurnar út fyrir börnum sínum,“ segir Kristján Ólafur.

Í tilkynningu dagsins kemur fram að staða smits á Austurlandi sé enn óbreytt, enginn greindist í gær, átta hafa alls greinst, sex er batnað en tveir eru enn í einangrun. Fimmtán manns eru í sóttkví, einum færri en í gær.

Mynd úr safni.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.