Besta ár í sögu Loðnuvinnslunnar
Hagnaður af rekstri Loðnuvinnslunnar Fáskrúðsfirði á síðasta ári var rúmir tveir milljarðar króna eftir skatta. Afkoma fyrirtækisins hefur aldrei verið betri, sem verður að teljast eftirtektarvert í ljósi þess að engin loðna veiddist hér við land.Tekjur Loðnuvinnslunnar jukust um 8% á milli ára og voru 12,8 milljarðar á síðasta ári, eða 10,5 milljarðar að frádregnum eigin afla. Rekstrargjöld voru 7,1 milljarður og hagnaður fyrir skatta og afskriftir 3,3 milljarðar. Endanlegur hagnaður félagsins var síðan 2,067 milljarðar króna, samanborið við 700 milljónir árið 2018.
Niðurstaðan er athygliverð í ljós þess að framleiðsla fyrirtækisins minnkaði um 10 þúsund tonn og tekið var á móti 30% minni afla, eða allt 66 þúsund tonnum. Samdrátturinn skýrist að langmestu leyti af loðnubresti en einnig var samdráttur í fleiri aflategundum.
Frystiklefinn dýrmætur
Í ársskýrslu fyrirtækisins kemur hins vegar fram að landvinnslan hafi gengið vel og markaðir verið hagstæðir auk þess sem veikara gengi krónunnar hafði jákvæð áhrif á fyrirtækið. Á móti er bent á að veiðileyfagjöld hafi haft umtalsverð áhrif á félagið og það greitt 451 milljón eða 5,3% af veltu í veiðileyfagjöld og tekjuskatt.
Verð á mjöl og lýsi hækkaði á árinu, gott verð fékkst fyrir frysta þorskhnakka í Frakklandi og fyrir aðrar frystar afurðir á helstu mörkuðum í Evrópu og Bandaríkjunum. Verð á síld var lágt þótt það hækkaði milli ára og þá gekk makrílvertíðin ágætlega þótt hún endaði snögglega þremur vikum fyrr en áður.
Nýr frystiklefi, sem tekinn var í notkun fyrir þremur árum, varð Loðnuvinnslunni til happs í loðnubrestinum þar sem til voru birgðir frá árinu 2018 sem seldust á mjög góðu verði. Í skýrslunni segir að frystiklefinn hafi reynst mikilvægur eftir að Rússlandsmarkaður lokaði þar sem lengi tíma taki að afskipa afurðum en áður.
Vilja að dregið verði úr skattlagningu
Í ársreikningi er að finna aðvörun við mögulegum áhrifum Covid-19 faraldursins á afkomuna á yfirstandandi ári. Þar segir að ljóst sé að faraldurinn hafi einhver áhrif til skemmri tíma en óvissa sé um langtímaáhrif.
Þá er í skýrslunni kallað eftir því að stjórnvöld tryggi stöðuga umgjörð utan um rekstur sjávarútvegsfyrirtækja. „Mikilvægt er að stjórnvöld hafi skilning á mikilvægi fyrirtækja sem skapa fólki atvinnu allt árið um kring og eru burðarásar í sínum byggðarlögum. Nauðsynlegt er að dregið verði úr þeirri ofurskattlagningu sem sjávarútvegurinn hefur búið við og var það gert að nokkru leyti á síðasta ári með lækkun veiðigjalda.
Loðnuvinnslan hefur á að skipa góðu starfsfólki bæði til lands og sjávar og stór hluti starfsmanna á að baki langan starfstíma hjá félaginu. Verði umhverfi sjávarútvegsfyrirtækja almennt eðlilegt ásamt því að farið verði að öllu með gát, ætti Loðnuvinnslan hf. að eiga góða rekstrarmöguleika
Rúmar 22 milljónir í styrki
Sú hefð hefur fylgt aðalfundi Loðnuvinnslunnar að veita styrki til verkefna í heimabyggð. Að þessu sinni veitti félagið 18,8 milljónir til félagasamtaka á Fáskrúðsfirði. Stærsta styrkinn fékk knattspyrnudeild Leiknis, 11 milljónir, en karlalið félagsins spilar í næst efstu deild Íslandsmótsins í sumar.
Að auki fékk Starfsmannafélag Loðnuvinnslunnar 6 milljónir til sinnar starfsemi, Björgunarsveitin Geisli eina milljón og Grunnskóli Fáskrúðsfjarðar 800 þúsund til að kaupa stoðtæki í tölvukennslu.
Samþykkt var að greiða 20% arð til hluthafa, eða 140 milljónir. Stærstur hluti hans rann til Kaupfélags Fáskrúðsfirðinga sem á 83% hluta í Loðnuvinnslunni. Aðalfundur þess var haldinn á sama tíma og voru þar einnig veittir styrkir upp á 3,6 milljónir króna.
Þar fékk fimleikadeild Leiknis eina milljón til kaupa á dansgólfi, frjálsíþrótta- og skíðadeild félagsins aðra milljón til kaupa á búnaði og afmælisnefnd félagsins þá þriðju til að halda upp á 80 ára afmæli félagsins í haust.
Þá fékk Bókasafn Fáskrúðsfjarðar 300.000 krónur til kaupa á húsgögnum og Félagi eldri borgara á Fáskrúðsfirði var gefið 75“ sjónvarp sem komið verður fyrir í félagsheimilinu Glaðheimum.