Betri búnaður fækkar strokulöxum en samt verða slys
Dýrafræðingur segir að hvíld eigi að duga til að botndýralíf nái sér að mestu eftir fiskeldi. Þá hafi slysasleppingum úr eldi fækkað mjög þótt erfitt sé að koma alveg í veg fyrir þær. Andstæðingar fiskeldis á Seyðisfirði óttast áhrif mengunar frá eldinu á lífríki fjarðarins.„Fiskeldi er landbúnaður og það hefur áhrif, til dæmis á botndýralíf en áhrifin eru staðbundin,“ sagði Þorleifur Eiríksson, doktor í dýrafræði og framkvæmdastjóri rannsóknafyrirtækisins Rorum á íbúafundi sem Fiskeldi Austfjarða stóð fyrir á Seyðisfirði fyrir viku.
Þorleifur hefur í áraraðir rannsakað áhrif fiskeldis á lífríki og hefur komið að rannsóknum á ástandi hafsbotnsins í Seyðisfirði, sem hann sagði hafa verið „þó nokkuð miklar.“
Hreinn skítur
Þorleifur rakti hvernig úrgangur frá fiskinum safnast fyrir á sjávarbotni undir kvíum. Efst er lag sem verður gjarnan hvítt af bakteríum sem þar lifa. Þar undir er lag virkt lag sem einhver dýr geta lifað. Í þriðja laginu eru loftháðar bakteríur. Neðsta lagið verður gjarnan svart og í því getur myndast brennisteinsvetni, sem er eitrað og af því leggur þá fúlan fnyk.
Þorleifur sagði að sjaldnast gengi þróunin svo langt og svæðið nái sér að nýju fái það hvíld. „Þá koma tegundir úr nágrenninu og setjast á svæðið. Þetta er í raun lífrænt efni sem rotnar niður og verður næstum eins og áður.“
Hann sagði rannsóknir, sem meðal annars hafa verið gerðar undanfarin 20 ár samhliða fiskeldi í Berufirði, sýna fram á þetta. Mest eru áhrifin beint undir kvíunum, en minnka smám saman og eru nær horfin í 100 metra fjarlægð. Samkvæmt starfsleyfi ber að hvíla eldissvæði reglulega og ekki má byrja að nota þau aftur nema með leyfi Umhverfisstofnunar.
Á fundinum var spurt út í áhrif þess að setja út í fjörðinn skólp sem samsvaraði 160 þúsund manna byggð, en það byggir á því sem fjórar milljónir laxa eða 10.000 tonn eins og fyrirhugað er að rækta á Seyðisfirði, láta frá sér árlega. Þá lýsti íbúi sem tók til máls áhyggjum sínum af því að 10% fjarðarins yrðu líflaus og lífrænu efnin yrðu ekki annað en „svört súrefnislaus leðja sem lyktaði af brennisteini.“
Þorleifur sagði rangt að tala um úrgang fiskanna sem skólp. Í skólpi frá mannfólki væru bakteríur, eiturefni og fleira sem valdið geta sýkingum. Frá fiskunum berist aðeins lífrænt efni. „Við getum sagt að það sé hreinn skítur sem kemur frá fiskeldinu.“
Tvær sögur um erfðablöndun í Noregi
Á fundinum var töluvert spurt út í áhættuna af erfðablöndun villilax og eldislax. Í áliti Skipulagsstofnunar á umhverfismati eldisins í Seyðisfirði var bent á að áhættumat Hafrannsóknastofnunar næði ekki til minni í Seyðisfirði þar sem kunni að búa erfðalega fágætir stofnar. Jens Garðar Helgason, framkvæmdastjóri Laxa fiskeldis, sagði enga aðra þjóð gera áhættumat eins og Íslendingar.
Jón Kaldal, frá Íslenska umhverfissjóðnum, spurði út í reynslu annarra þjóða og vitnaði til rannsókna um að 67% villtra stofna í Noregi bæru merki erfðablöndunar auk þess sem hún hefði fundist í sænskum ám, þótt þar sé ekki fiskeldi. „Hvaðan kemur blöndunin í Noregi?“ spurði Jón.
Þorleifur sagðist ekki þekkja tölurnar frá Svíþjóð en kvaðst ekki geta ímyndað sér hvaðan annars staðar blöndunin kæmi en frá Noregi. Hann þekkti hins vegar til talnanna frá Noregi og sagði hægt að skipta norskum laxám í þrennt.
Í þriðjungi þeirra teldist mengunin alvarleg þar sem í stofnunum væru viðvarandi gen sem rekja mætti til eldislax. Í öðrum þriðjungi finnist eldisgen í hluta fiska. Hann skýrði blöndunina með miklum sleppingum úr norsku eldi fyrstu árin sem það var stundað. Hann sagði það hafa minnkað verulega með bættum búnaði „en slys verða,“ bætti hann við.
Hann sagði eldislax í eðli sínu húsdýr sem þar af leiðandi ætti erfitt með að lifa af eða koma genum sínum áfram, þótt hann sleppi út í sjó. „Líkur á erfðablöndun byggist alltaf á hve margir sleppa. Möguleikar eldislax á að koma genum sínum áfram eru mun minni en annarra laxa.“
Þá benti Þorleifur á að engin genamengun væri í þriðjungi norsku ánna. Það væri merkilegt í ljósi þess hve mikið eldi hefði verið þar og sem fyrr segir mikið um sleppingar í byrjun. Hann sagði lítið hafa verið um að lax slyppi úr eldi hérlendis og fáa slíka hafa fundist í íslenskum laxám.
Skiptir máli hvaða tegund þörunga blómstrar
Á fundinum var einnig rætt um bæði þörungablóma, sem olli miklum skaða í fiskeldi í Seyðisfirði á tíunda áratug síðustu aldar, og marglyttur sem herjað hafa á fiskeldi eystra. Jens Garðar sagði að engin afföll hefðu verið á fiskeldi eystra í miklum þörungablóma síðasta haust. Þörungarnir væru í botni fjarða en ekki utar þar sem eldið sé.
Þorleifur sagði hringstraum við Íslandsstrendur skapa stöðugan flutninga efna sem gerði þörungablóma sjaldgæfan. Miklu skipti hvaða tegundir blómstri. Sumir séu eitraðir meðan aðrir valdi því aðeins í versta falli að vöxtur fiskanna minnki. Hann sagði unnið að því að skrásetja alla þörunga sem finnist á Austfjörðum og vakta þá.
Áskorun að verjast marglyttum
Jens Garðar viðurkenndi að marglytturnar væru áskorun víða á Austfjörðum frá miðjum ágúst fram í byrjun desember. Magn hennar væri misjafnt milli ára og meira í Reyðarfirði heldur en Fáskrúðsfirði og Berufirði. Fiskeldi Austfjarða hefði þróað aðferðir til að verjast marglyttum og tæki þátt í verkefni til að bæta þær.
Um mögulegan olíuleka frá flaki El Grillo sagði Jens að fyrirtækið hefði áætlun um að bregðast við því auk þess sem verið væri að rannsaka möguleg áhrif leka. Hann lagði áherslu á að starfsemi fiskeldisins væri ítarlega vöktuð og þar væru saman hagsmunir greinarinnar og annarra.
„Það gleymist stundum að það eru okkar hagsmunir að umhverfi fjarðanna sé í lagi. Annað væri svipað og að útgerðarmaðurinn veiddi allan fiskinn í sjónum. Þetta þarf að vera sjálfbær og ábyrg starfsemi,“ sagði Jens, við misjafnar undirtektir fundargesta.