Bíða svara um bætur vegna vatnstjóns

Seyðisfjarðarkaupstaður hefur óskað eftir stuðningi frá íslenska ríkinu vegna tjóns sem varð eftir miklar rigningar í lok júní. Skoðað er hvort hægt verði að bæta ofanflóðavarnir til framtíðar um leið og hreinsað verður eftir flóðin.


Vilhjálmur Jónsson bæjarstjóri segir tjónin sem urðu í bænum skiptast í þrennt. Í fyrsta lagi þau tjón sem bætt séu af viðlagatryggingu og sé vinna þar langt komin. Í öðru lagi eru tjón sem eiga heima hjá vátryggingafélögunum og í þriðja lagi tjón sem eru þar utan en fellur þá á sveitarfélagið.

Bæjarráð fór yfir málið á síðasta fundi sínum fyrir sumarfrí og í framhaldinu var haft samband við forsætisráðuneytið með ósk um aðstoð. Síðan hafi tekið við sumarleyfi og á meðan hafi lítið gerst.

Vilhjálmur segir ofanflóðavarnir í firðinum skoðaðar um leið. „Það er meðal annars verið að rannsaka ofanflóðavarnir og skoða hvort hægt sé að ráðast í betrumbætur samhliða lagfæringum.“

Hann segir erfitt að meta tjónið, það sé minna ef hægt sé að vinna það samhliða ofanflóðavörnunum. „Það þarf að endurgera ræsi og götur og hreinsa úr lækjarfarvegum eftir skriður. Sú hreinsun kostar tugi milljóna ef ekki er hægt að vinna hana samhliða ofanflóðavörunum.“

Á bæjarstjórnarfundinum voru einnig bókaðar þakkir til starfsmanna bæjarins sem og annarra sem hefðu unnið góð störf sem drógu verulega úr tjóninu. Eins var Viðlagatryggingu þökkuð skjót viðbrögð eftir að hafa fengið viðvörun og markviss viðbrögð í kjölfarið.

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.