Bíða átekta gagnvart mislingasmiti

Heilbrigðisyfirvöld bíða átekta eftir hvort fram komi mislingasmit. Farþegi með staðfest smit kom austur til Egilsstaða með áætlunarflugi síðasta föstudag.

Í tilkynningu frá embætti landlæknis kemur fram að einstaklurinn hafi komið til Íslands frá Filippseyjum fimmtudaginn 14. febrúar.

Hann ferðaðist með vél Icelandair frá London til Keflavíkur og síðan áfram með flugi NY 356 hjá Air Iceland Connect frá Reykjavík til Egilsstaða föstudaginn 15. febrúar.

Búið er að hafa samband við bæði farþega vélanna og þá sem maðurinn hefur umgengist eftir komuna til landsins. Upplýsingum hefur einnig verið miðlað til heilbrigðisstarfsmanna.

Mislingaveiran er mjög smitandi og berst milli manna frá öndunarfærum, til dæmis hósta eða hnerra. Veiran getur lifað og valdið smiti í allt að tvo tíma eftir að hún berst út í andrúmsloftið.

Einstaklingur er smitandi einungis eftir að einkenni koma fram og er smitandi í 7−10 daga. Einkenni mislinga koma yfirleitt fram 10–14 dögum eftir smit en að hámarki geta liðið 3 vikur. Farþegar flugvélanna hafa verið hvattir til leita til lækna sinna fram til 7. mars finni þeir til einkenna sem geti bent til mislinga, einkum séu þeir óbólusettir.

Fyrstu einkenni mislinga eru flensulík, hiti, hósti, bólgnir eitlar, sviði í augum og höfuðverkur. Á þriðja eða fjórða degi veikinda koma oftast fram útbrot sem ná yfir allan líkamann. Veiran getur verið hættuleg og valdið varanlegum skaða.

Þær upplýsingar fengust hjá embætti landlæknis í morgun að ekki væri enn komið fram annað staðfest smit en beðið væri átekta fram til 7. mars. Ekki væri talin hætta á faraldri á landinu þar sem almenningur er almennt vel bólusettur.

Þeir einstaklingar sem hafa verið bólusettir eða hafa fengið mislinga þurfa ekki frekari bólusetningu en þeir sem ekki hafa verið bólusettir og ekki fengið mislinga geta fengið bólusetningu innan 6 daga frá hugsanlegu smiti. Eftir þann tíma er ólíklegt að bólusetning komi í veg fyrir sýkingu. Bólusetningu er hægt að fá á heilsugæslustöðvum.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar