Birna Jóna kastaði rúma 56 metra á Evrópumóti
Birna Jóna Sverrisdóttir, frjálsíþróttakona frá Egilsstöðum, var nokkuð frá sínu besta á Evrópumóti unglinga 18 ára og yngri, sem fram fór í Banska Bystrica í Slóvakíu í síðustu viku.Birna Jóna kastaði þremur köstum, hið fyrsta var ógilt, það næsta 56,38 metrar og hið síðasta 56,70 metrar. Það skilaði Birna Jónu 11. sætinu í flokki 17 ára og í 21. sæti í heildarkeppninni. Birna Jóna hefur lengst kastað 58,17 metra á þessu ári.
Þær tólf sem áttu lengstu köstin fóru í úrslit en til þess að komast í þann flokk þurfti að kasta yfir 59 metra. Tvær þýskar stúlkur urðu í efstu sætunum,báðar með köstum yfir 69 metra.
Birna Jóna var ein þriggja íslenskra keppenda á mótinu. Þetta er hennar þriðja alþjóðlega mót í sumar en áður hafði hún keppt á Gautaborgarleikunum í júlí og móti í Þýskalandi í maí. Þar komst hún á verðlaunapall með köstum í kringum 58 metra.
Mynd: Frjálsíþróttasamband Íslands/Hlín Guðmundsdóttir