Blak: Tvö töp gegn KA

Karlalið Þróttar í blaki er áfram í fjórða sæti deildarinnar eftir tvo ósigra gegn toppliði KA í síðustu viku.

Liðin mættust fyrst á Akureyri á þriðjudagskvöld og þann leik vann KA 3-0. KA liðið hafði yfirburði í fyrstu hrinu og vann hana 25-17.

Jafnt var löngum í annarri hrinu en eftir að staðan var 18-17 náði KA góðri rispu og vann 25-20. Yfirburðir Akureyrarliðsins í þriðju hrinunni voru algerir og vann það 25-11.

Lið Þróttar var reyndar vængbrotið í leiknum þar sem það vantaði báða Spánverjana, Borja Gonzales og Miguel Castrillo. Þeir komu hins vegar báðir inn fyrir seinni leikinn á laugardag en komu ekki í veg fyrir annan 0-3 sigur KA.

KA hafði undirtökin alla fyrstu hrinu en munurinn varð ekki meiri en þrjú stig fyrr en rétt í lokin. KA vann hana 18-25. KA hafði hins vegar meiri yfirburði í annarri hrinu og vann hana 15-25.

Þróttur átti hins vegar fína þriðju hrinu, átta sinnum skiptust liðin á forustu og var Þróttur yfir 23-22. KA vann hins vegar eftir upphækkun, 25-27. Castrillo var lykilmaður Þróttar og skoraði 23 stig í leiknum.

Þróttur er í fjórða sæti deildarinnar með átta stig eftir 10 leiki, tveimur stigum meira en Afturelding en fjórða sætið veitir rétt til þátttöku í úrslitakeppninni.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.