Austfirðingar versla í heimabyggð til að halda þjónustunni

Austfirðingar leita í austfirskar verslanir í desember því þeir vilja tryggja að þjónustan sé til staðar. Verslunareigandi í Neskaupstað segir jólavertíðina hafa verið ótrúlega góða.

„Verslunin hefur verið ótrúlega góð og mikið að gera síðustu daga. Ég vissi ekki alveg við hverju var að búast enda bara að fara í gegnum jólavertíðina í annað skiptið en þetta hefur gengið betur en ég þorði að vona,“ segir Birta Sæmundsdóttir sem stendur að baki gjafavöruversluninni Björt í Neskaupstað.

Björt er í sama húsnæði og hýsti verslunina Kristal í áraraðir. Kristall lokaði í fyrra og meðal breytingar stóðu yfir minnkaði gjafavöruúrvalið í Neskaupstað. „Fólk segir beint við mig að það vilji versla í heimabyggð til að halda í þjónustuna. Ég veit það á ekki bara við um mig heldur fleiri verslanir hér á svæðinu.

Til mín koma ekki bara Norðfirðingar heldur fólk víða af Austurlandi, þannig ég finn mikinn stuðning,“ svarar Birta aðspurð um hvort Austfirðingar séu duglegir að versla í heimabyggð. Samkvæmt könnun Austurfréttar kaupir tæpur helmingur Austfirðinga helst jólagjafirnar í fjórðungnum, stærsti einstaki verslunarstaðurinn er netið með um 25%.

En hjá Björt hefur verið nóg að gera og síðustu dagana fyrir jól fær Birta aðstoð til að anna eftirspurninni. „Ég er heppin að þegar skólinn er búinn get ég fengið með mér fólk. Ég er með þrjár stúlkur með mér frammi í búð, síðan fæ ég vini og fjölskyldu ef það er alveg brjálað. Ég sé að ég þarf mögulega fleiri næst.“

Björt er með úrval af norrænni hönnunarvöru, svo sem Ittala og Bitz. Í nóvember bættist við Eva Solo sem Birta segir gamalt og klassískt merki sem margir þekki en hafi ekki verið selt lengi á Austurlandi, svo hún viti til.

Annars virðist sælkeramatur njóta vaxandi vinsælda í jólapakkann. „Í vor byrjaði ég að flytja beint inn danskar sælkeramatvörur sem urðu strax mjög vinsælar og hafa orðið enn vinsælli nú fyrir jólin. Ákveðnar vörur eru að verða búnar. Fólki finnst oft erfitt að finna gjafir fyrir einkum eldra fólk sem á allt og vill þá frekar gefa gjafir sem eyðast, í stað þess að koma með nýja hluti inn á heimili fólks.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.