„Blóðbankinn þarf 70 blóðgjafa á dag“

Blóðbankinn er á leiðinni austur og verður með blóðsöfnun á Egilsstöðum í dag og á Reyðarfirði á morgun og miðvikudag.



Móttaka verður á heilsugæslunni á Egilsstöðum í dag, milli klukkan 11:00 og 16:00 og á heilsugæslu Alcoa Fjarðaáls á morgun þriðjudag, milli klukkan 8:30 og 18:00 sem og á miðvikudaginn milli klukkan 8:30 og 14:30.



„Blóðgjöf er lífgjöf“

„Allir heilsuhraustir á aldrinum 18 til 65 ára geta gerst blóðgjafar. Við fyrstu komu er þó einungis tekið blóðsýni, mældur púls- og blóðþrýstingur auk þess að yfirfara heilsufarssögu,“ segir Svanbjörg Pálsdóttir, hjúkrunarfræðingur hjá Fjarðaáli.

„Það skiptir Blóðbankann afar miklu máli að stækka blóðgjafahópinn sinn, en bankinn þarf um 70 blóðgjafa á dag. Áhuginn hér í Alcoa er mjög mikill og margir sem hafa áhuga á að gerast blóðgjafar en hafa ekki tök á því að fara suður til þess að gefa blóð. Þetta er því frábært framtak hjá Blóðbankanum að fara um landið og safna.“

Svanbjörg segir að konur megi gefa blóð á fjögurra mánaða fresti og karlmenn á þriggja mánaða fresti. „Þetta er ekkert mál og gerir okkur bara gott, fyrir utan þá staðreynda að blóðgjöf er lífgjöf, má líta á það sem góðverk dagins.“

Svana vill hvetja alla til þess að velta þessum möguleika fyrir sér, en hvetur jafnframt til þess að panta tíma í síma 843-7691, þar sem morgundagurinn er orðinn þétt setinn, en þegar þetta er skrifað voru sjö tímar lausir. Á miðvikudaginn er meira laust og ekki þarf að panta tíma milli klukkan 11:00 og 14:30 á miðvikudaginn, bara mæta.

Hér er heimasíða Blóðbankans.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar