BM Vallá hverfur frá Austurlandi

bm_valla.jpgTil stendur að leggja niður starfsemi BM Vallár á Reyðarfirði í lok mánaðarins. Umsvifin hafa minnkað verulega eftir bóluna á svæðinu um miðjan áratuginn. Að auki hefur fyrirtækið siglt í gegnum mikinn öldusjó.

 

Frá þessu er greint í Austurglugganum. Þar segir að fyrirtækið hafi hafið rekstur á Reyðarfirði fyrri sjö árum þegar unnið var að gerð Fáskrúðsfjarðarganga. Þegar mest lét störfuðu um 50 manns hjá fyrirtækinu á Reyðarfirði sem hélt úti umfangsmikilli starfsemi í steypu- og hellusölu.

Einn starfsmaður starfar nú hjá BM Vallá og hefur honum verið sagt upp störfum vegna þessa. Hluti rekstrarins hefur verið seldur til verktakafyrirtækisins Yls.

Talsverðar sviptingar hafa einnig verið hjá fyrirtækinu sjálfu sem varð gjaldþrota í kjölfar bankahrunsins. Í fyrrahaust náðist samkomulag við skiptastjóra þrotabúsins um að Arion-banki tæki fyrirtækið yfir. Bankinn auglýsti síðan hlut sinn til sölu í vor. Undanfarna mánuði hefur því staðið yfir umfangsmikil endurskipulagning á félaginu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar