Boðskapurinn skilar sér heim

Leikskólinn Lyngholt fagnaði á dögunum þeim góða árangri að hljóta grænfánann í fimmta sinn. Páll Björgvin Guðmundsson, bæjarstjóri og Anna Berg Samúelsdóttir, umhverfisstjóri, aðstoðuðu nemendur við að draga fánann að húni.



Lyngholt hefur verið „skóli á grænni grein“ frá árinu 2007 og og grænfáninn var fyrsta sinn dreginn að húni árið 2008.

Skólar á grænni grein er alþjóðlegt verkefni sem hefur það að markmiði að að auka umhverfismennt og styrkja menntun til sjálfbærni í skólum. Skólar ganga í gegnum sjö skref í átt að aukinni umhverfisvitund og sjálfbærni. Þegar því marki er náð fá skólarnir að flagga Grænfánanum til tveggja ára og fæst sú viðurkenning endurnýjuð ef skólarnir halda áfram góðu starfi.

Grænfáninn er umhverfisviðurkenning sem nýtur virðingar víða í Evrópu sem tákn um árangursríka fræðslu og umhverfisstefnu í skólum. Stofnanir þurfa að uppfylla sjö skref til þess að hljóta fánann í á tveggja ára fresti. Skerfin eru ákveðin verkefni sem efla vitund nemenda, kennara og annarra starfsmanna skólans um umhverfismál. Verkefnin eru bæði til kennslu í bekk og til að bæta daglegan rekstur skóla. Þau styrkja grunn að því að tekin sé ábyrg afstaða og innleiddar raunhæfar aðgerðir í umhverfismálum og sjálfbærni innan skólans. Jafnframt sýnir reynslan að skólar sem taka þátt í verkefninu geta sparað talsvert í rekstri.

Unnið er með ákveðin markmið til tveggja ára í senn. Lyngholt er nú að ljúka vinnu með lýðheilsu og náttúruvernd og næstu tvö árin verður ljósinu beint að vatni og neyslu.


„Miklu harðari í flokkuninni en við“

Steinunn er deildarstjóri Öðlingadeildar, sem eru elstu börn leikskólans, sem og Grænfánatengiliður skólans.

„Ég hef alltaf verið umhverfismanneskja. Ég bjó í Svíþjóð um tíma og var í verknámi í umhverfisskóla og ég held að áhuginn hafi almennilega kviknað þar og hefur þetta loðað við mig síðan,“ segir Steinunn.

„Það er svo dásamlegt að kenna í leikskóla, börnunum finnst allt sem sagt er svo áhugavert, þau meðtaka allt og það sem kennarinn segir er bara lög. Þetta höfðar vel til þeirra og sérstaklega af því að þau fá að vinna með það sem verið er að predika.

Boðskapurinn skilar sér heim og það er markmiðið með þessu öllu saman. Foreldrar koma gjarnan til okkar og segja frá því hvað börnin eru að ræða heimafyrir og innleiða. Þau eru miklu harðari í flokkuninni heldur en við fullorðna fólkið.“

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.