Börnin vita oft meira um samskiptaforritin en foreldrarnir
Mikilvægt er að foreldrar eigi samtöl við börn sín um þær hættur sem felast í notkun samskiptaforrita og skapa öruggt umhverfi til að börnin geti leitað stuðnings ef þau lenda í ógöngum. Máli skiptir er að efla sjálfsöryggi ungmenna þannig þau geti sett í mörk í samskiptum sínum.„Við vitum að þau eru að prófa sig áfram á þessum forritum og vita oft miklu meira um þau en foreldrarnir,“ segir Þóra Jónsdóttir lögfræðingur hjá Barnaheillum.
Héraðsdómur Austurlands sýknaði í haust karlmann á fertugsaldri af ákæru um kynferðisbrot gagnvart barni sem að ljúka grunnskólagöngu þegar atvikið átti sér stað.
Maðurinn og ungmennið mæltu sér mót í gegnum stefnumótaforrit. Samkvæmt notendaskilmálum mega yngri en 18 ára ekki nota forritið en auðvelt er að gefa upp annan aldur, sem og barnið gerði. Sýknan byggir á að barnið hafi aldrei greint manninum rétt frá aldri sínum, hvorki á forritinu né augliti til auglitis.
Verða að læra að þekkja hætturnar
Þóra segir mikilvægt að foreldrar eigi uppbyggileg og hreinskiptin samtöl við börn sínum um notkun samskiptaforrita.
„Við hvetjum foreldra til að eiga samtöl við börnin þannig þau þekki hætturnar þannig þau velji sér ekki vettvang sem býður upp á óöryggi. Stundum eru börnin meira leitandi af því þau hafa ekki átt samtölin. Þess vegna er mikilvægt að foreldrar gefi sér tíma til að eiga góðar spjallstundir.
Þau samtöl mega ekki vera upplituð af of miklum áróðri eða tilfinningasemi. Börn læra með jákvæðum hætti, ekki að upplifa að þau séu að gera sífelld mistök.“
Hjálp en ekki skammir í vandræðum
Þóra mælir ekki með að foreldrar lesi yfir samskipti barna sinna. Virða þurfi friðhelgi þeirra til einkalífs. Hins vegar þurfi að skapa umhverfi þannig að barnið geti leitað stuðnings ef það lendi í erfiðleikum.
„Við þurfum að geta sett okkur mörk í samskiptum. Við verðum að læra að þekkja hvenær einhver er farinn að gagna það nærri okkur að okkur líði ekki vel og getum sagt stopp. Ef fólk virðir það ekki þarf maður að fá aðstoð.
Við þurfum að rækta með börnum næmi fyrir tilfinningum sínum þannig þau geti stöðvað samskiptamynstur sem þau vilja ekki.
Best er að geta vitað að hægt sé að treysta fjölskyldunni og leita til hennar ef maður er kominn í óefni, segja frá og fá hjálp við að að komast úr ógöngunum. Ef einhver er í vanda þarf að hjálpa honum og finna leiðir til að styrkja hann. Það verður að bera virðingu fyrir að allir geti lent í vandræðum.
Ef foreldrar treysta sér ekki til að taka umræðuna geta þeir fengið stuðning frá fagfólki,“ segir Þóra sem vinnur með samtökum á borð við SAFT, samtökum um samfélag, fjölskyldu og tækni.
Annað lykilatriði að sögn Þóru er að rækta upp einstaklinga með sterka sjálfsmynd. „Við förum öll í gegnum tilraunastarfsemi á kynþroskaskeiðinu, en þeir sem hafa sterka sjálfsmynd eru síður útsettir fyrir að leita í áhættuna. Áhættusækni er oft afleiðing einhvers konar óöryggis og ekki nógu sterkrar sjálfsmyndar.“
Mynd: Bandaríski flugherinn/Jacob Mosol