Bólusett á Egilsstöðum og Eskifirði í kvöld og morgun
Allir einstaklingar eldri en sex mánaða og fæddir eftir 1970 sem ekki hafa verið bólusettir eru hvattir til að mæta í bólusetningu. Tekið verður á móti fólki á Egilsstöðum og Eskifirði í kvöld og á morgun.Í tilkynningu frá Heilbrigðisstofnun Austurlands segir að ákvörðunin sé tekin í ljósi upplýsinga um hugsanlegt nýtt mislingasmit á Egilsstöðum.
Allir einstaklingar eldri en 6 mánaða og fæddir eftir 1970 sem ekki hafa verið bólusettir eru hvattir til að mæta í bólusetningu. Bólusett verður á Egilsstöðum og Eskifirði í dag, föstudaginn 8. mars, frá kl. 15:00 til 20:00.
Þeir sem telja sig hafa verið í samskiptum við smitaðan einstakling eru beðnir að koma í bólusetningu kl. 20:00-21:00.
Á Egilsstöðum er bólusett á Lagarási 22, skrifstofu framkvæmdastjórnar gegn heilsugæslustöðinni, en á Eskifirði á heilsugæslustöðinni.
Þá verður bólusett á báðum stöðum á morgun, laugardaginn 9. mars, frá kl. 10:00 til 15:00. Þeir sem telja sig hafa verið í samskiptum við smitaðan einstakling eru beðnir að koma í bólusetningu kl. 15:00-16:00.
Ekki þarf að panta tíma, nóg er að koma á tilgreindum tímum.
Einstaklingar sem fæddir eru fyrir 1970 hafa langflestir fengið mislinga og eru því ekki í forgangi í bólusetningu.
Einstaklingar sem eru með sögu um eina bólusetningu eru ekki í forgangi. Hægt verður að bjóða þeim bólusetningu síðar.