Börn á Austurlandi fá tækifæri í Upptaktinum

„Upptakturinn er mjög vandað verkefni sem gefur þeim krökkum sem sýna áhuga og þrautseigju á sviði tónsköpunar tækifæri. Verkefnið hefur einungis verið fyrir börn á höfuðborgarsvæðinu og því er mjög gleðilegt að geta loks boðið uppá þátttöku hér fyrir austan,” segir Karna Sigurðardóttir, forstöðumaður Menningarstofu Fjarðabyggðar.

Með Upptaktinum, Tónsköpunarverðlaunum barna og ungmenna, er ungu fólki gefið tækifæri til að senda inn tónsmíð eða drög að henni og vinna markvisst úr hugmyndum sínum með fulltingi listamanna. Afrakstur þeirra vinnu má sjá og heyra á lokatónleikum Upptaktsins á opnunarhátíð Barnamenningar sem fram fer í apríl í Silfurbergi í Hörpu. Þar leika atvinnuhljóðfæraleikarar verk barnanna en ungmennin sitja á meðal áheyrenda.

„Það eru auðvitað ekki öll börn að smíða tónlist, en þetta styrkir þau börn sem eru á þeirri braut og gefur þeim tækifæri á að sanna sig. Sú lífsreynsla sem bíður barnanna sem verða valin í áframhaldandi vinnu er ómetanleg, bæði með því að fullvinna hugmyndir sínar með fagfólki og að heyra verkið sitt flutt af atvinnufólki í tónlist í Hörpu. Dæmi eru um krakka sem hafa farið í Upptaktinn og valið sér síðan tónsmíðanám í framhaldinu. Það er okkur mikils virði að geta boðið krökkunum hér aðgengi að samsvarandi tækifærum og annarsstaðar á landinu, en við viljum styðja við þá sem hafs hug á að vera virkir í listsköpun í fjórðungnum, það eykur lífsgæði okkar allra.” segir Karna.


Enn frekari undirbúningur fyrir Upptaktinn
Unnið er að enn frekari undirbúningi fyrir Upptaktinn á Austurlandi. „Verið er að undirbúa tónsmíðavinnustofur hér fyrir austan sem getur stutt krakkana í sínum smíðum og eflt þau til að sækja um næsta vor. Tónlistarmiðstöð Austurlands hlaut styrk til þess verkefnis frá Uppbyggingarsjóði og þetta er bara byrjunin á frekara samstarfi við Upptaktinn," segir Karna. 

Lengd tónverks skal vera 2 -6 mínútur að hámarki bæði einleiks og samleiksverk fyrir allt að fimm flytjendur. Skila þarf tónsmíð inn í hefðbundinni eða grafískri nótnaskrift eða með hljóðritun. Hugmyndir s.s. upptökur, nótur, texti eða grafísk lýsing má senda rafrænt á netfangið This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar