Brautarmet slegið í Urriðavatnssundinu
Kristján Haukur Flosason gerði sér lítið fyrir um helgina og setti nýtt brautarmet í Urriðavatnssundinu þegar hann lauk 2,5 kílómetra sundinu á 32 mínútum og 43 sekúndum. Það þremur og hálfri mínutu betra en fyrra met.
Sundið var haldið í tólfta skipti á laugardaginn var í blíðskaparveðri þó sólar nyti ekki við. Einhverra hluta vegna voru þátttakendur óvenju fáir en aðeins 21 einstaklingur þreytti sundið að þessu sinni en vatnið mældist 14 stiga heitt. Mestur var fjöldinn árið 2019 þegar fjöldi sundgarpa var 240 talsins.
Það var sundkonan Ingibjörg Garðarsdóttir úr Breiðablik, sem átti fyrra brautarmet í sundinu þegar hún lauk keppni á tímanum 36 mínútur og 17 sekúndur svo um talsverða bætingu er að ræða hjá Kristjáni Flosa sem segist þó ekki ýkja vanur sundi í köldu vatni.
Næstum hætt við sundið
Að sögn Þórunnar Hálfdánardóttur, eins skipuleggjenda sundsins, mátti ekki miklu muna að sundinu nú yrði aflýst.
„Það var rætt meðal okkar skipuleggjenda að hætta við vegna dræmrar þátttöku en ekki hafa verið svona fáir um langa hríð. Skýringuna kann ég ekki því veðrið var ekki slæmt en hugsanlega hefur haft áhrif að við neyddumst til að aflýsa í fyrra sökum kuldatíðar með tiltölulega litlum fyrirvara. Vel kann að vera að skýringarnar séu fleiri en til að við aðstandendur getum komið út á sléttu svona sæmilega þarf kringum 60 til 70 keppendur og þetta var langt undir því. Það varð okkur til happs að við erum austurhluti Landvættakeppninnar og það voru þeir sem tóku á sig kostnað að þessu sinni í stað þess að aflýsa alveg. En við þurfum fleiri til að láta þetta ganga upp eftirleiðis.“
Urriðavatnssund þarf töluverðan mannskap til að geta átt sér stað og yrði alls ekki hægt án mikillar hjálpar og alls ekki ef keppendum fjölgar ekki vel umfram það sem var raunin um helgina. Mynd Steinunn Ingimarsdóttir.