Brothættar byggðir stuðluðu að stórkostlegum framförum í Breiðdal

Samningur við Byggðastofnun um framkvæmd verkefnisins Brothættar byggðir í Breiðdal rann út um áramótin. Það er þar með annað byggðarlagið sem útskrifast úr verkefninu. Ánægja er bæði hjá Breiðdælingum og Byggðastofnun með hvernig til tókst.

„Ég upplifi það sem stórkostlega framför að hafa fengið þetta verkefni. Við værum ekki á þeim stað sem við erum í dag ef það hefði ekki komið til,“ segir Svandís Ingólfsdóttir, íbúi á Breiðdalsvík.

Verkefninu var hrundið af stað með fjölsóttu íbúaþingi í nóvember 2013. Því átti upphaflega að ljúka í lok árs 2017 en var framlengt um ár vegna byrjunarörðugleika.

Farið var yfir hvernig til tókst á íbúafundi í gær. Verkefnið byggir bæði á að koma af stað samtali til að efla byggðarlög sem glíma við langvarandi fólksfækkun en því fylgja einnig fjármunir til verkefna. Alls hefur verið úthlutað tæpum 26 milljónum til fjölbreyttra verkefna í Breiðdal undanfarin ár.

Fólkið var tilbúið í breytingar

Talsmenn fyrirtækja sem fengið höfðu styrki, eins og Breiðdalsbita, Goðaborgar, Beljanda brugghús og Tinna Adventures sögðu frá þýðingu styrkjanna fyrir fyrirtækin á fundinum í gærkvöldi. Þeir voru sammála um að þeir hefðu skipt sköpun í framþróun þeirra.

„Við höfum líka bent á frystihúsið breytast úr eyðihúsi í stórkostlegt flott hús,“ benti Svandís á í samtali við Austurfrétt eftir fundinn.

Hún sagði Breiðdælinga hafa tekið höndum saman um að nýta tækifærið þegar aðstoð Byggðastofnunar bauðst. „Það hefur alltaf verið vel mætt á fund og fólk sýnt áhuga. Fólkið var tilbúið til breytinga, íbúunum hafði fækkað um 100 á fáeinum árum, það var komið að endapunkti. Byggðastofnun á hrós skilið fyrir hversu vel var að þessu staðið.“

Samfélagið hefur styrkst

Aðalsteinn Þorsteinsson, forstjóri Byggðastofnunar, sagðist sjá mun á Breiðdalnum að loknu verkefninu. „Samfélagið hér hefur styrkst að mínu mati. Þegar við byrjuðum hafði samfélagið glímt við langvarandi fólksfækkun, erfiðleika í atvinnulífi og annað sem fylgir því. Hér hafa verið gróðursettir margir sprotar sem eru að vaxa og dafna og munu eflaust skila árangri til framtíðar.“

Breiðdalshreppur var eitt af fyrstu byggðarlögunum til að fara inn í Brothættar byggðir, sem þá var á tilraunastigi. „Byggðastofnun fær heilmikið úr úr verkefninu hér um hvernig á að starfa með og hafa samráð við íbúa og koma á móts við væntingar þeirra. Við renndum blint í sjóinn en þetta verkefni hefur skilað okkur miklum árangri. Brothættar byggðir hafa fengið mikla viðurkenningu og aðsókn í þær er meiri en við getum annað.“

Byggðastofnun mun áfram hafa eftirfylgni með hvernig þeir styrkir sem síðast var úthlutað nýtast en sveitarfélagið Fjarðabyggð hefur einnig gefið vilyrði fyrir að halda áfram vinnunni. „Það eru orðnar miklar breytingar og Breiðdalur orðinn hluti af hinni öflugu Fjarðabyggð. Við bindum vonir við að sveitarfélagið taki höndum saman við íbúanna hér og haldi áfram þeirri vinnu sem þetta verkefni byggir á.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar