Búist við yfir 100 milljóna hagnaði hjá Vopnafjarðarhrepp

Gert er ráð fyrir að handbært fé Vopnafjarðarhrepps hækki um 55 milljónir króna á næsta ári og hagnaður verði yfir 100 milljónir króna samkvæmt ný samþykktri fjárhagsáætlun.


Samkvæmt áætluninni er gert ráð fyrir að tekjur sveitarfélagsins verði alls 995,3 milljónir króna en gjöld 864 milljónir. Þegar allt er reiknað er búist við 103 milljóna króna hagnaði.

Handbært fé hækkar samkvæmt áætluninni um 55 milljónir króna og verður í lok ársins 126 milljónir. Nokkuð hefur gengið á það í ár en reynt hefur á fjárhag sveitarfélagsins vegna hafnarframkvæmda.

Sveitarfélagið mun í lok næsta árs skulda 380 milljónir en skuldir eiga að lækka næstu ár samkvæmt langtímaáætlun.

Fræðslumál er stærsti einstaki útgjaldaliður sveitarfélagsins en áætlað er að rúmar 260 milljónir fari í málaflokkinn.

Gert er ráð fyrir 62,8 milljónum í framkvæmdir. Fyrirferðamestar eru framkvæmdir við skrifstofu sveitarfélagsins og viðhald á grunnskólanum. Tólf milljónir eru settar í hvort verk.

Í úttektum síðustu ár hefur Vopnafjarðarhreppur verið talinn eitt af stöndugustu sveitarfélögum landsins. Vendipunktur var þegar það seldi hlutabréf sín í HB Granda í lok árs 2011.

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.