Býr til skyr og gríska jógúrt úr geitamjólk í sumar

Þorbjörg Ásbjörnsdóttir, bóndi á Lynghól í Skriðdal, hyggst í sumar setja á markað nýjungar unnar geitamjólk, en um er að ræða bæði skyr og gríska jógurt. Vörumerki Þorbjargar er Geitagott en hingað til hefur hún einbeitt sér að gerð fetaosts undir heitinu Moli.


„Ég er einnig að læra að búa til brauðost eða gouda, en hann kemur ekki á markaðinn fyrr en í fyrsta lagi í haust,“ segir Þorbjörg. Sem stendur er hún með 18 mjólkandi geitur á Lynghóli en von er á 12 til viðbótar næsta sumar.

Þorbjörg er fædd og uppalin Húnvetningur þar sem hún ólst upp á blönduðu búi en hún flutti hingað austur árið 1999 og þá frá Snæfellsnesi. Í millitíðinni menntaði hún sig sem þroskaþjálfi. Hún og maður hennar ráku tamningastöð á Snæfellsnesi í nokkur ár ásamt því að taka unglinga í fóstur.

„Þetta voru unglingar sem af einhverri ástæðu þurftu að búa annars staðar en heima hjá sér,“ segir Þorbjörg. „En ég held að það hafi gert flestum þessara unglinga mjög gott að búa á hestabúi.“

Þorbjörg segir að við að læra að umgangast hest læri unglingarnir einnig hluti eins og að hafa stjórn á sjálfum sér og hafa stjórn á þeim hlutum sem þeir eru að fást við, svo dæmi séu tekin.

Gamall draumur

„Þetta er gamall draumur hjá mér. Mig hefur alltaf langað að halda geitur,“ segir Þorbjörg. Þegar ég fór að viðra þennan draum minn voru viðtökurnar blendnar í fyrstu. En að lokum féllst maðurinn minn á sjónarmið okkar mæðgnanna og við fengum okkur geitur.“ Árið 2014 komu fyrstu geiturnar og 2016 fórum við að íhuga hvort hægt væri að hafa önnur not af geitum en bara sem gæludýr.

„Það varð úr að ég fór að framleiða Mola og það hefur gengið ótrúlega vel. Hingað til hefur mér aldrei tekist að fullnægja eftirspurninni. Allt sem ég framleiði selst um leið og það er tilbúið. Það er að stórum hluta sama fólkið sem kaupir ostinn aftur og aftur.“

Þá segir Þorbjörg að þessi mikla eftirspurn helgist sennilega af því hve fáir séu að framleiða vörur úr geitamjólk hérlendis. Aðeins sé um þrjá bæi að ræða. Lynghól, Háafell og Brúnastaði í Fljótum. Það sé hinsvegar nokkur fjöldi sem haldi geitur og þá yfirleitt á bilinu 5 til 10 slíkar.

Þorbjörg segir að geitur og kindur séu alls ekki sambærilegur bústofn. Kannski hafi það hindrað fleiri bændur í að koma sér upp geitum að þeir hugsi þær eins og kindur. „Geitur eru mjög vanafastar og mikilvægt að temja þær, þú rekur þær ekki eins og kindur og auðvelt er að koma inn hjá þeim fastri rútínu. Til dæmis koma mínar geitur alltaf heim um kvöldmatarleytið. Geitur eru dásamleg dýr,“ segir Þorbjörg.

Mynd: Þetta er gamall draumur hjá mér. Mig hefur alltaf langað að halda geitur,“ segir Þorbjörg. Mynd Facebook

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar