Dæmdur fyrir árás með skófluskefti

Héraðsdómur Austurlands hefur dæmt karlmann á þrítugsaldri í þriggja mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir að nota skefti af álskóflu til að berja annan mann.

Árásin átti sér stað í lok júní í fyrra framan við ótilgreindan skemmtistað á Austurlandi. Samkvæmt skýrslu lögreglu var þolandinn sleginn tvisvar í líkama og hendi með skeftinu svo hann hlaut bólgu og eymsli á handlegg og síðu.

Ákærði játaði brot sitt fyrir dómi. Í skýrslu lögreglu kemur fram að hann hafi verið mjög ölvaður þegar hann var handtekinn, en hann hafði þetta kvöld fallið eftir nokkurra mánaða bindindi að lokinni áfengismeðferð.

Maðurinn á nokkurn brotaferil að baki frá árinu 2007, þar með talin endurtekin brot fyrir fíkniefnalagabrot, líkamsárás og sviptingu ökuréttinda ævilangt. Í dóminum kemur fram að sléttum mánuði fyrir árásina hafði hann afplánað dóm frá 2016 með samfélagsþjónustu.

Hann hafði þá haldið skilorð. Dómarinn hafði það í huga, auk einlægrar iðrunar og breytta haga ákærða sem væri kominn í fasta vinnu og hefði fyrir ungri fjölskyldu að sjá, við uppkvaðningu refsingarinnar.

Auk hennar var honum gert að greiða fórnarlambinu 275 þúsund krónur í miskabætur og 105 þúsund í málskostnað. Þá þarf hann að greiða skipuðum verjanda sínum 450 þúsund krónur í þóknun og útlagðan kostnað.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar