Deilur út af strandblakvelli magnast upp: Fulltrúi á skrifstofu sakaður um einelti og ofsóknir

Sveitarstjóri Vopnafjarðarhrepps hefur beðið húseiganda afsökunar hafi verið brotið gegn rétti hans við byggingareftirlit á lóð hans. Lóðareigandinn sakaði fulltrúa á skrifstofu um ofsóknir gegn sér vegna andstöðu við byggingu strandblakvallar í bænum.


Íbúinn hugðist byggja skýli á lóð sinni við Fagrahjalla. Í bókun frá síðasta fundi skipulags- og umhverfisnefndar er því haldið fram að framkvæmdin sé án heimildar þar sem ekki liggi fyrir skilgreindur byggingarreitur né gildandi deiliskipulag um lóðina.

Þótt eigandinn sé í rétti miðað við byggingareglugerð hafi honum borið að tilkynna framkvæmdina. Samt sé nefndin tilbúin að taka umsókn til umfjöllunar þar sem henni hafi fylgt uppdrættir.

Íbúinn kvartaði hins vegar undan framgöngu starfsmanns nefndarinnar. Í bréfi sem hann sendi hreppsnefnd sakar hann fulltrúann um að hafa hótað sér að framkvæmdir skyldu stöðvaðar með öllum tiltækum ráðum.

Í bréfinu segist íbúinn hafa haft samband við byggingafulltrúa sveitarfélagsins sem hafi sagt honum að ekkert til fyrirstöðu að halda byggingunni áfram ef slökkviliðsstjóri hefði ekkert við hana að athuga. Í tölvupósti staðfestir slökkvistjóri að hann hafi ekkert við bygginguna að athuga.

Ítrekað við húsið

Íbúinn hófst því handa á ný en segir þá að starfsmaður hreppsins hafi „ítrekað verið við húsið, stoppandi, talandi í síma og takandi myndir.“ Hann telur sig hafa orðið fyrir „einelti og ofsóknum“ og tengir það við að hann hafi skrifað undir mótmæli við byggingu strandblaksvallar í bænum, sem nú hefur verið kærð til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarnefndar.

Máli sínu til stuðnings vísar hann í tölvupóstsamskipti starfsmannsins við slökkviliðsstjórann. Þar skrifar hann:

„Merkilegt hvernig menn hugsa. Þessum manni finnst sjálfsagt og eðlilegt að setja sig á móti strandblakvelli sem planaður er í 200 m. fjarlægð frá húsi hans en þegar gerð er ath.semd við athafnir hans eru embættismenn svf. að við hafa e-ð misjafnt bara til að hefna sín á honum vegna andstöðu í við blakvallarmálinu alltså.“

Hafnaði samskiptum við nefndina

Íbúinn lýsir því að hann hyggist ekki skila inn umsóknum eða uppdráttum, hann hyggist ekki hafa frekari samskipti við starfsmenn byggingafulltrúa eða skipulagsnefndina og fer fram á að hreppsnefnd og sveitarstjóri taki á málinu annars sé hann tilneyddur að leita lengra.

Eftir að hafa fundað með íbúanum, oddvita og formanni skipulagsnefndarinnar sendi sveitarstjóri bréf þar sem hann, sem yfirmaður starfsmannamál, biðst velvirðingar á því „hafi verið brotið gegn rétti á einhvern hátt við eftirlit á byggingarstað.“

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.