Desember einn sá hlýjasti í sögunni

Nýliðinn desembermánuður er einn sá hlýjasti sem mælst hefur á austfirskum veðurstöðvum. Mánuðurinn var um þremur gráðum hlýrri en gengur og gerist.

Þetta kemur fram í samantekt Veðurstofu Íslands um tíðarfar í desember. Stofnunin birtir mánaðarlega yfirlit yfir hitatölur af tólf veðurstöðvum.

Hæstur var meðalhitinn á Stórhöfða í Vestmanneyjum en næst hæstur á Dalatanga, 3,6 gráður. Er þetta sjötti hlýjasti desembermánuður sem mælst hefur á stöðinni í 81 árs sögu hennar.

Á Teigarhorni var meðalhitinn 2,8 gráður sem gerir mánuðinn þann áttunda hlýjasta í 146 ára sögu og á Egilsstöðum var meðalhitinn 1,2 gráður og mánuðurinn sá fimmti hlýjasti í 64 ára sögu.

Sérstaka athygli vekur að þetta er umtalsvert hlýrra en gengur og gerist. Samanborið við meðaltal áranna 1961-1990 er mánuðurinn þremur gráðum hlýrri á Dalatanga og Teigarhorni en 3,4 gráðum á Egilsstöðum.

Þegar borið er saman við meðaltal áranna 2007-2018 er mánuðurinn 2,8 gráðum hlýrri á Egilsstöðum en um 2 gráðum á hinum stöðvunum tveimur.

Í samantektinni kemur fram að mesta jákvæða hitavikið miðað við síðustu tíu ár hafi verið í Möðrudal, 3,5 gráður. Þar mældist hins vegar mest frost mánaðarins, -22,5 gráður þann fjórða.

Í samantekt Veðurstofunnar fyrir nóvember kemur einnig fram að hann hafi verið í hlýrra lagi. Meðalhitinn á Dalatanga var 3,8 gráður og Teigarhorni 3,9 en 1,4 á Egilsstöðum. Það er um eða yfir tveimur gráðum meira en meðaltal stöðvanna fyrir árin 1961-1990 en um hálfri gráðu meira en meðaltal undanfarins áratugar.

Útlit er fyrir að hlýindin haldi áfram. Spáð er um og yfir tíu stiga hita á Austfjörðum og Norðurlandi eystra frá því í kvöld og fram á aðfaranótt fimmtudags. Hlýindunum fylgir einnig talsvert hvassviðri.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar