Djúpavogshreppur hlýtur viðurkenningu fyrir brautryðjendastarf í þágu minjaverndar

Minjastofnun Íslands hefur veitt Djúpavogshreppi sérstaka viðurkenningu fyrir mikilvægt brautryðjendastarf í þágu minjaverndar. Viðurkenningin er veitt fyrir sérstaka áherslu á verndun menningararfs í stefnumörkun sveitarfélagsins á sviði skipulagsmála og atvinnuþróunar.

Viðurkenningin var veitt á ársfundi stofnunarinnar á fimmtudag en þetta er í annað sinn sem viðurkenningin er afhent. Vegagerðin hlaut hana árið 2015.

Djúpivogur varð nýverið fyrst sveitarfélaga til að fá staðfest verndarsvæði í byggð. Fleira liggur hins vegar að baki viðurkenningunni.

Í rökstuðningi Minjastofnunar segir að þótt byggðarlagið hafi átt í vök að verjast í atvinnumálum hafi sveitastjórnendur engu að síður lagt metnað sinn í að marka byggðarlaginu sérstöðu í skipulags- og atvinnumálum með að leggja áherslu á sögulega arfleifð staðarins í allri stefnumótun en hann er meðal elstu verslunarstaða landsins.

Í aðalskipulagi hreppsins fyrir árin 2008-2020 hafi verið sett fram metnaðarfull húsaverndarstefna og á grundvelli hennar hafi verið unnin viðamikil húsakönnun sem lokið var við 2014. Sú hafi verið vandarði og efnismeiri en flestar slíkar kannanir sem gerðar hafi verið hér á landi.

Auk stefnumótunar hefur sveitarfélagið beitt sér fyrir og að hluta til kostað endurbyggingu þriggja gamalla húsa og er eitt þeirra, Geysir, nú ráðhús byggðarlagsins. Frumkvæði forráðamanna sveitarfélagsins á sviði húsverndar hefur orðið eigendum eldri húsa á staðnum hvatning til að gera upp hús sín og á þann hátt styrkja hina sögulegu ásýnd byggðarinnar.

Andrés Skúlason, oddviti Djúpavogshrepps, tekur við viðurkenningunni úr höndum Kristínar Huldar Sigurðardóttur, forstöðumanns Minjastofnunar.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar