Dæmdur: Tók vél og gírkassa úr bíl í eigu Lýsingar
Hálfþrítugur karlmaður var í gær dæmdur í fjögurra mánaða skilorðsbundið fangelsi í Héraðsdómi Austurlands fyrir fjárdrátt. Maðurinn fjarlægði vél, gírkassa og útvarpstæki úr bifreið í eigu fjármögnunarfyrirtækisins. Dómari gagnrýnir að rannsókn málsins hafi að mestu legið niðri í heil tvö ár.
Ákærði fékk Mitsubishi Lancer bifreið til umráða frá Lýsingu sumarið 2008. Henni átti að skila í júní 2009 þar sem maðurinn stóð ekki í skilum við fjármögnunarfyrirtækið. Þegar umboðsmenn fyrirtækisins komu höndum yfir bílinn var búið að fjarlæga vélina, gírkassann og útvarpstækið úr bílnum.
Ákærði játaði brot sitt fyrir dómi en hafnaði ríflega fjögurra milljóna bótakröfu Lýsingar sem sagði „verðmæti bifreiðarinnar“ hafa „rýrnað við aðgerðir ákærða.“
Ákærði bar því við að vélin hefði „hrunið“ og hún verið tekin úr fyrir viðgerð. Gírkassinn hefði verið tekinn úr við sama tilefni. Hann vildi ekki gefa upp hvar hlutirnir væru niðurkomnir þótt ítrekað væri spurt um það við rannsókn málsins. Hann skilaði aftur á móti útvarpstækinu.
Í dómnum kemur fram að ákæra málsins hafi ekki verið gefin út fyrr en tæpum tveimur árum eftir að rannsókn þess hófst hjá lögreglu. Gögn málsins beri það með sér að rannsóknin hafi að mestu legið niðri frá nóvember 2009 fram í mars 2011.
Töfin varð meðal annars til þess að dómari ákvað að skilorðsbinda dóminn. Maðurinn var því dæmdur í fjögurra mánaða skilorðsbundið fangelsi til tveggja ára.