Dóms í skotárásarmáli að vænta eftir tvær vikur

Dóms Landsdóms í skotárásarmáli á Egilsstöðum er að vænta eftir tvær vikur. Málið var flutt fyrir dóminum í vikunni.

Ákærði, Árnmar Guðmundsson, skaut málinu til Landsdóms í vor eftir að hafa verið dæmdur í átta ára fangelsi af Héraðsdómi Austurlands. Hann var sakfelldur af helstu ákæruatriðum, þar með talið tveimur tilraunum til manndráps. Hann neitaði þeim fyrir Landsdómi líkt og hann gerði í héraði.

Atburðirnir áttu sér stað að kvöldi 26. ágúst árið 2021. Héraðsdómur dæmdi Árnmar fyrir að hafa ógnað þáverandi sambýliskonu með skotvopni á heimili þeirra í Fellabæ áður en hann keyrði yfir í Egilsstaði að húsi barnsföður hennar þar sem hann réðist inn með hlaðið skotvopn. Að sögn Árnmars ætlaði hann aðeins að hræða manninn sem var ekki heima heldur tveir synir hans sem flúðu út. Árnmar hleypti síðan af skotum inni í húsinu.

Eftir um klukkustundarumsátur kom Árnmar í dyragætt hússins og skiptist á skotum við lögreglu sem endaði með að hún skaut hann í kviðinn. Hann var fluttur lífshættulega særður með sjúkraflugi til Reykjavíkur þar sem hann gekkst undir vandasama aðgerð.

Samkvæmt fréttum Fréttablaðsins og Mbl.is af réttarhöldum vikunnar voru engin ný gögn lögð fram í Landsrétti. Í fyrradag voru spilaðar upptökur af vitnaleiðslu fyrir héraðsdómi en í gær var málið flutt munnlega af ákæruvaldi og verjanda.

Líkt og í héraði er helsti ágreiningurinn um frásögn lögreglumannsins sem særði Árnmar. Tækniskýrslur lögreglu sýndu fram á að hann hafi staðið annars staðar en hann taldi sig hafa gert. Þá bendir greinargerð hljóðsérfræðings til þess að fullyrðing um að Árnmar hafi skotið að lögreglu fyrst sé ekki rétt heldur hafi verið skotið á sömu millisekúndunni. Árnmar heldur því fram að hann hafi aldrei ætlað sér að hæfa lögregluna, þvert á móti hafi hann ætlað henni að skjóta sig.

Ákærandi sagði í gær að ákæruvaldið teldi 8-10 ára dóm hæfilegan fyrir verknað sem þennan. Verjandi Árnmars benti hins vegar á að hann hefði sýnt mikla iðrun og það mikla fyrirmyndarhegðun í fangelsinu á Hólmsheiði að hann hefði verið færður yfir á Kvíabryggju.

Samkvæmt svari frá skrifstofu Landsréttar við fyrirspurn Austurfréttar skal dómur liggja fyrir eins fljótt og auðið er eftir aðalmeðferð, þó eigi síðar en fjórum vikum eftir hana. Annars þurfi mögulega að endurtaka hluta málflutnings. Síðasta dómsuppkvaðning Landsréttar á þessu ári verður eftir tvær vikur, 16. desember, og má því þess vænta að dæmt verði í málinu í síðasta lagi þann dag.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar