Dómsmál um dælingu fellt niður

Vopnafjarðarhreppur og Veiðifélag Selár hafa gert samkomulag um greiðslur fyrir heitt vatn í hús veiðifélagsins við Selá. Þar með er fallið frá dómsmáli sem höfðað hafði verið vegna deilna um greiðslur fyrir vatnið.

Sveitarfélagið stefndi Veiðifélaginu til greiðslu reikninga fyrir dælingu og notkun á heitu vatni. Hreppurinn hefur árum saman dælt upp heitu vatni við Selá til notkunar í Selárdalslaug.

Þegar nýtt veiðihús var reist við Selá fyrir fimm árum voru lagðar lagnir þangað þannig hægt væri að nýta afgangsvatn úr borholum sem ekki nýttust sveitarfélaginu.

Fyrir það var aldrei greitt og á endanum sendi sveitarfélagið fjögurra milljóna króna reikning sem varð kveikjan að dómsmálinu, meðal annars því veiðifélagið taldi sig hafa greitt fyrir dælu, rafmagn og lagnir fyrir vatn sem annars streymdi út í Selá.

Samkvæmt samkomulagi, sem staðfest var af sveitarstjórn Vopnafjarðarhrepps í síðustu viku, greiðir Veiðifélag Selár 1,5 milljónir króna fyrir dælingu vatns árin 2012-2017, eða 250 þúsund krónur á ári. Sú upphæð á að greiðast í dag.

Framvegis greiðir Veiðifélagið 400.000 krónur á ári. Ákvæði eru um endurnýjun búnaðar og eftirlit. Samningurinn er ótímabundinn og ekki uppsegjanlegur fyrr en árið 2022.

Með þessu á að vera tryggt nægt vatn áfram til rekstur sundlaugarinnar og veiðihúsið hafi sem heitast vatn þegar gestir dvelja þar.

Um leið er dómsmálið fellt niður en aðalmeðferð þess var á dagskrá héraðsdóms Austurlands eftir slétta viku. Hvor aðili tekur á sig sinn hlut málskostnaðar.

Með samkomulaginu er lokið öllum málum sem snúa að Veiðifélagi Selár. Hreppurinn á þó enn í deilum við landeiganda um eignarrétt á landinu þar sem heita vatnið er tekið.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.