Drógu fulllestaðan línubát til hafnar

Hafdís, skip björgunarsveitarinnar Geisla á Fáskrúðsfirði, kom til hafnar á Stöðvarfirði á áttunda tímanum í morgun með línubát í eftirdragi. Báturinn varð vélarvana í nótt skammt austur af Skrúð.


„Þetta gekk ótrúlega vel, þrátt fyrir að báturinn væri þungur og sjórinn erfiður,“ segir Grétar Helgi Geirsson, formaður Geisla.

Sveitin var kölluð út rúmlega þrjú í nótt með þeim skilaboðum að línubáturinn væri að verða vélarvana austur af Skrúð. Bilun kom upp í eldneytiskerfi bátsins þannig að skipverjar gátu ekki skipt frá tanki sem var að tæmast yfir á þann næsta.

Tankurinn tæmdist endanlega skömmu áður en félagar úr Geisla um borð í Hafdísi komu að bátnum, sem varð þá bæði vélarvana og stýrislaus, um klukkan fjögur.

Grétar Helgi segir að ekki hafi verið teljandi hætta á ferðum þrátt fyrir sjólagið. Nokkuð hafi verið í að bátinn ræki upp á Skrúð, en ekki hefði verið gaman fyrir skipverja að bíða um borð við þessar aðstæður.

Báturinn var á leið í land með fullfermi. Talið er að hann hafi vegið um 80 tonn í heildina. „Þetta er stærsti bátur sem við höfum þurft að draga í svona miklum sjó,“ segir Grétar Helgi.

Hafdís er töluvert léttari en reyndist þó vel enda aflmikil. Þó var aðeins siglt á 2-3 sjómílna hraða að meðaltali í land og stefnan tekin inn á Stöðvarfjörð, bæði því þangað var styttra að fara en einnig út af vindáttinni, en talsverður öldugangur var oog þungur sjór.


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.