Dýrast að hita húsin á Seyðisfirði

Húshitunarkostnaður í þéttbýli á Austurlandi er hæstur á Seyðisfirði en heildarorkukostnaður er hæstur á Borgarfirði. Orkukostnaðurinn hefur lækkað töluvert undanfarinn áratug miðað við að upphæðirnar séu núvirtar á verðlagi síðasta árs.

Byggðastofnun ber árlega saman orkukostnað heimila eftir þéttbýlisstöðum. Reiknuð er út húshitun annars vegar og raforkunotkun í annað hins vegar, á einbýlishúsi sem er 140 fermetrar að grunnfleti og 350 rúmmetrar. Miðað er við að keypt sé rafmagn frá ódýrasta mögulega söluaðila.

Á Austurlandi var dýrast að hita húsið í gegnum fjarvarmaveituna á Seyðisfirði, 208 þúsund krónur. Á flestum stöðum er hitað með rafmagni og er kostnaðurinn þá 197 þúsund. Lækkunin á þessum stöðum nemur rúmum fjórðungi en á Borgarfirði eystra hefur verðið lækkað um þriðjung. Staðurinn var áður skilgreindur sem dreifbýli við flutning raforku en staðan hefur verið jöfnuð með niðurgreiðslum.

Á Eskifirði er viðmiðunarkostnaðurinn 155 þúsund, sem er 16,5% lækkun. Ódýrast er að hita húsin á Egilsstöðum, 125 þúsund og 120 þúsund í Fellabæ. Þar hefur kostnaðurinn hækkað um 2%.

Á landsvísu er ódýrast að hita húsin á Brautarholti á Skeiðum og Seltjarnarnesi, 75 þúsund en dýrast í Grímsey eða 246 þúsund. Þar er notast við olíu. Næst dýrust er kynding með hitaveitu á Grenivík og Nesjahverfi í Hornafirði.

Heildarkostnaður hæstur á Borgarfirði


Að jafnaði kostar rafmagnið á Austurlandi fyrir eignina 101 þúsund krónur. Það á ekki við á Borgarfirði sem flokkaður er sem dreifbýli, þar kostar það 120 þúsund. Staðan hefur hins vegar jafnast út, árið 2021 var dreifbýlisframlag aukið og fyrirkomulagi þess breytt þannig það náði til allra þátta gjaldskrár.

Heildarorkukostnaðurinn er engu að síður hæstur á Borgarfirði, 317 þúsund. Á Seyðisfirði er heildarorkukostnaðurinn 308 þúsund. Þar sem notast er við rafhitun er orkukostnaðurinn 309 þúsund. Á öllum þessum stöðum er um 20-28% lækkun að ræða frá árinu 2014.

Á Eskifirði nemur lækkunin á því tímabili 14% og er 256 þúsund. Lækkunin í þéttbýlinu á Héraði er 3,5% en þar er orkukostnaðurinn lægstur, rúm 220 þúsund. Á landsvísu er heildarorkukostnaðurinn lægstur á Seltjarnarnesi, 163 þúsund en hæstur í Grímsey, 374 þúsund.

Varmadælan getur sparað


Samanburðinn í heild sinni ásamt ítargögnum má finna á vef Byggðastofnunar. Þar er vakin athygli á að lækka megi húshitunarkostnað viðmiðunareignarinnar um 100 þúsund krónur á ári með „loft í vatn“ varmadælu sem skili 50% sparnaði. Þeir sem kynda íbúðarhúsnæði sitt með rafmagni geta sótt um styrk til Orkustofnunar til að setja hana upp. Það þýðir að aðrir íbúar annarra staða á Austurlandi en Egilsstaða, Fellabæjar og Eskifjarðar geta óskað eftir henni.

Lengri útgáfa birtist í Austurglugganum. Hægt er að panta áskrift hér.


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar