Ég á bara eitt líf; opið forvarnarmálþing í Nesskóla
Vímuefni og skaðsemi þeirra verður umfjöllunarefni árlegs forvarnarmálþings sem haldið verður í Nesskóla Neskaupstað á laugardaginn.
Sem fyrr eru þau forvarnarteymi Verkmenntaskóla Austurlands ásamt fjölskyldusviði Fjarðabyggðar og foreldrafélögum VA og Nesskóla sem standa að málþinginu. Húsið verður opnað klukkan 10:00 og hefst dagskrá klukkan 10:30 og stendur til klukkan 13:00. Málþingið er öllum opið, aðgangur er ókeypis og hressing í boði.
Fyrirlesar verða fulltrúar frá Minningarsjóði Einars Darra - Ég á bara eitt líf. Bára Tómasdóttir móðir Einars Darra, systur hans þær Andrea Ýr Arnarsdóttir og Aníta Rún Óskarsdóttir, sem og Kristján Ernir Björgvinsson, vinur Einars Darra og fíkill í bata verða með erindi.
Margrét Lilja Guðmundsdóttir, kennari á Íþróttafræðisviði HR og sérfræðingur hjá Rannsóknum og greiningu verður með erindið Það eru engir töfrar.
Fulltrúar frá félagsjónustu Fjarðarbyggðar verða með fyrirlestur um meðferðarúrræði
Markmiðið er að efla umræðu um málaflokkinn
Salome Rut Harðardóttir, forvarnarfulltrúi Verkmenntaskóla Austurlands, hefur haft umsjón með þinginu. „Ástæða þess að við völdum þetta viðfangsefni í ár er það sem hefur verið að gerast í þjóðfélaginu undanfarin ár, en mörg ungmenni hafa látist af völdum vímuefna. Ungmennin okkar eru alltaf að verða opnari og duglegri að tjá sig og þegar einhver mál koma upp þá tölum við um þau, hvers vegna þau komu upp og hvað er hægt að gera til þess að koma í veg fyrir þau,” segir Salome Rut, en einnig verður ungmennaþing á föstudaginn, fyrir nemendur VA og alla tíundu bekkinga í Fjarðabyggð og á Héraði.
„Markmiðið er að efla umræðuna um málaflokkinn og benda á þau úrræði sem í boði eru fyrir ungmenni og aðstandendur þeirra sem eiga við vímuefnavanda að stríða,” segir Salome Rut.