„Ég ætlaði aldrei að verða sjómaður“

Borgfirðingurinn Eiríkur Gunnþórsson byrjaði að stunda sjóinn með föður sínum þegar hann var tólf ára gamall. Framtíðin var endanlega ráðin þegar hann valdi frekar að fara á vertíð á Höfn fremur en í skóla eftir fermingu. Eiríkur rær enn en telur að sjómannsferillinn sé orðinn stuttur í annan endann.

Eiríkur, sem er fæddur árið 1940 á Borgarfirði og er fjórði í röð átta systkina, byrjaði 12 ára gamall að róa með föður sínum, Gunnþóri Eiríkssyni.

„Þá vorum við bara á leigubát. Maður var aðeins sjóveikur til að byrja með en það fór fljótt af. Það var kalt og leiðinlegt, ég ætlaði ekkert að verða sjómaður,“ segir Eiríkur í viðtali við vikublaðið Austurgluggann.

Eftir árið keypti Eiríkur bát með föður sínum og réru þeir saman næstu níu árin. Fyrstu árin var Eiríkur víðar en bara á Borgarfirði.

„Þegar ég var fjórtán ára átti að senda mig í skóla. Þá brást ég nú við og réði mig á bát á Höfn. Þá var sjómennskan byrjuð af alvöru. Ég var alltaf bölvaður letingi að læra svo það varð ekkert úr því.“

Hann var þrjár vertíðir á Höfn, eina í Vestmannaeyjum áður en hann fór til Grindavíkur og var þar einar tíu vertíðir.

Stærsti bátur sem smíðaður hefur verið á Borgarfirði

Næsta bát eignaðist Eiríkur árið 1970. Hann hét Björgvin, 11 tonna trébátur sem mun vera sá stærsti sem smíðaður hefur verið á Borgarfirði.

„Hörður Björnsson smíðaði hann fyrir mig og ég var á honum í rúm 20 ár. Nafnið kom frá gömlum kunningja mínum sem hét Björgvin. Hörður smíðaði marga báta, nokkrar þriggja tonna trillur, en þetta er sá stærsti sem ég veit til að hafi verið smíðaður hér.“

Hvatinn að baki stærri bát var að geta sótt á fjarlægari mið. „Maður sá bátana hérna sunnan af fjörðunum, frá Seyðisfirði og Neskaupstað, koma norðan af Langanesi með góðan afla þegar við vorum að skaka hérna og fá ekki neitt.

Það var greinilegt að maður þurfti að komast lengra til að ná meiri fiski. Á Björgvini gat maður róið norður að Langanesi og jafnvel suður á Hornafjörð. Það var svolítið vask stundum á þeim túrum.“

NS-1

Árið 1990 seldi Eiríkur Björgvin ásamt kvóta til Síldarvinnslunnar en keypti í staðinn plastbát sem fékk nafnið Hafbjörg. Sá bátur var endurýjaður árið 2005.

„Ég keypti hann notaðan sunnan af Djúpavogi árið 2005, þegar ég hélt ég væri að hætta. Ég var orðinn of gamall – eða mér fannst það. Þessi er aðeins minni, þægilegri fyrir gamalmenni.“

Allir þessir þrír bátar hafa borið einkennisnúmerið NS-1. Það númer ber einnig bifreið Eiríks. „Þegar Björgvin var byggður var karl hér, sem átti trillu, að hætta. Hann átti þetta númer og gaf mér það eftir. Ég var nú svolítið að ganga á eftir honum og sníkja það af honum.“

Ekki hægt að lifa af strandveiðunum

Eiríkur segist sjá fram á að leggja bátnum á næstu árum en sér ekki fram á að selja bátinn sjálfan. „Ég held það blasi við að maður losnar ekki við bátinn. Það er víst hellingur af bátum á sölu, menn eru að gefast upp á strandveiðinni.

Það er eiginlega varla hægt að gera út bát á strandveiðar einar og sér. Tímabilið er svo stutt, það þarf eitthvað meira með. Það hjálpar mörgum að þeir eiga svolítinn kvóta, svo fara sumir á grásleppu.

Ég er með svolítinn kvóta sem ég fer á þegar strandveiðunum lýkur. Ég veit ekki hvað það verður lengi, ætli ég fari ekki að losa mig við hann. Ég veit ekki hvernig ég á að ná honum, ég leigi hann ef ég veiði hann ekki. Ég get vel dundað á strandveiðunum í eitt eða tvö ár.“

Mesta breytingin í útgerðinni á Borgarfirði þann tíma sem Eiríkur hefur sótt sjóinn er að hans mati bygging hafnarinnar við Hafnarhólmann.

„Áður vorum við í fjörunni við hafnargarðinn hér á Borgarfirði. Það var oft sem taka þurfti bátana á land ef það gerði norðanátt. Það var eiginlega vonlaus staða en við töldum að það væri eiginlega ekkert hægt að gera hérna til að fá frið í höfninni. Ég held að besti staðurinn, eða sá eini, hafi verið við Hafnarhólmann.

Aðstaðan þar var mesta breytingin. Bátinn minn rak reyndar einu sinni á land þar, hann slitnaði frá bryggju og brotnaði í spón en var endurbyggður og ég var á honum nokkur ár eftir það.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.