Eilífur starfsmannaskortur vegna íbúðaleysis má ekki hindra framtíð Austurlands

Einar Birgir Kristjánsson ætlaði að prófa að búa í ár á Austurlandi en þau eru nærri orðin fjörtíu. Hann byrjaði til sjós en stofnaði síðan Tandraberg til að þjónusta útgerðir. Einar hefur á síðustu árum fengið áhuga á nýtingu skógarafurða til húshitunar.

Einar er uppalinn í Vogunum og lýsir því að fyrst allir hans forfeður hafi sótt sjóinn hafi verið eðlilegt fyrir hann að fara á sjóinn. Eftir útskrift úr Stýrimannaskólanum fékk hann pláss í Neskaupstað sem hann ætlaði að prófa í eitt ár. Hann kynntist þar eiginkonu sinni, Árnýju Eiríksdóttur, og hefur verið eystra síðan.

Einar var á austfirskum togurum og gerði út trillu áður en hann stofnaði fyrirtækið Tandraberg, sem hann er oft kenndur við, árið 2001. Það þjónustaði í fyrstu smábáta og um tíma gerðu Einar og Árný út lítinn bát og ráku fiskvinnslu.

„Við leigðum kvóta til að hafa starfsemi í vinnslunni, en það reyndist vitavonlaust verkefni eftir því sem tíminn leið. Litlar fiskvinnslur geta ekki keppt við stóru aðilana og allra síst í gegnum fiskmarkaðina. Þetta var svona í bjartsýniskasti,“ segir hann.

Brettin til að jafna út sveiflurnar


Tandraberg fór hins vegar að taka að sér þjónustu í kringum landanir úr skipum, fyrst í Neskaupstað og Eskifirði en síðar víðar. Það getur verið nokkuð sveiflukennt og til að bregðast við því fór fyrirtækið að framleiða vörumerki. Tandraberg er með framleiðslu á þeim í Neskaupstað og er orðið nokkuð stórt á íslenska markaðinum.

„Í dag erum við sem sagt að smíða bretti í Neskaupstað, við erum að landa úr uppsjávarskipum á Eskifirði og sjáum um mjölið líka. Svo erum við með heilt sjálfstætt teymi á Vopnafirði sem tekur alla löndun þar. Þess utan leggst yfirleitt eitthvað aukreitis til. Við höfum til dæmis verið með mannskap í gróðurhúsinu í Fellabæ við að setja niður plöntur.“

Viðarperlur til húshitunar


Árið 2018 var Einar farinn að velta fyrir sér möguleikum í framleiðslu viðarperlna. Viðarperlur eru timbur sem er fyrst kurlað niður í frumeindir og síðan þjappað í smáar perlur, 5-6 mm í þvermál.

Hann keypti tæki til framleiðslunnar og setti upp á Eskifirði undir merkjum Ilms. Perlurnar nýtast ýmist til kyndingar eða sem undirlag, svo sem fyrir hesta. Þá hafa perlurnar verið notaðar til kyndingar á opinbergum byggingum í Neskaupstað. Einar sækir mikið af grisjunar- og afgangsefni í skógræktarsvæði Fljótsdalshéraði sem er unninn í perlurnar.

„Þessi tækni er kannski tiltölulega lítt þekkt hér á Íslandi. En þetta hefur lengi verið gert víða í Evrópu meðal annars. Í raun er þetta einn eðlilegasti orkugjafinn á köldum svæðum og þetta ferli, að nýta afgangstimbur og trjáboli sem þegar er búið að grisja er mjög vistvænt, sem passar við stefnu stjórnvalda í þessum málum. Að mínu viti er þetta ein hagkvæmasta leiðin til að kynda á köldum svæðum,“ segir Einar.

Lífkol lofa góðu


Einar hefur einnig komið að tilraunaverkefni með lífkol,sem eru viðarkol úr trjám sem brennd eru í loftlausum tanki og unnið úr þeim bæði eldsneyti og plastefni.

„Við sendum kolin í rannsókn erlendis og þar komu þau mjög vel út. Það er verið að prófa þau sem jarðvegsbæti en jarðvegur hér er gjarnan súr. Það er einnig verið að gera tilraunir með að bæta efninu í steypu. Það minnkar kolefnislosun og gerir steypuna léttari.

Síðast en ekki síst eru lífkol gjarnan notuð í ýmis fæðubótarefni bæði fyrir menn og dýr. Í Noregi er það til dæmis regla víða að blanda 6% lífkolum í kúafóður. Með því getur sá iðnaður lækkað kolefnissporið sitt um 12% samkvæmt rannsóknum, því kýrnar prumpa minna af því en með óblönduðu fóðri,“ útskýrir hann.

Enginn vill koma með fjölskylduna í starfsmannabúðir


Einar hefur líka löngum haft skoðanir á samfélagsmálum og framfaramálum Austurlands um þessar mundir er honum hvað efst í huga skortur á íbúðarhúsnæði. „Ég myndi vilja sjá fyrirtækin stofna saman eitt stórt leigufélag og byggja blokkir í öllum bæjarkjörnum hér. Hvert fyrirtæki keypti tiltekinn fjölda íbúða í hverri blokk fyrir sitt starfsfólk.

Þó fjármagn sé kannski ekki ódýrt nú um mundir, þá myndu svona stórir aðilar njóta mun betri lánakjara til slíkra verkefna, sem myndu leysa að einhverjum . Lífeyrissjóðir á borð við Stapa, sem er stór aðili hér, gætu komið að þessu líka.

Eilífur starfsmannaskortur vegna húsnæðisleysis má ekki lengur draga úr þeirri björtu framtíð sem er sannarlega til staðar fyrir Austurland. Bara hér í Fjarðabyggð á síðasta ári voru keypt upp fjögur gistiheimili og þeim breytt í starfsmannabúðir.

Við erum þannig meira og meira að verða í svona vertíðarstemningu því enginn getur eða vill koma með fjölskyldur í starfsmannabúðir. Það fólk skýtur því engum rótum hér og tekur þar af leiðandi engan þátt í samfélögunum hér. Það er afar slæmt því það vantar sárlega fleira fólk hingað til langs tíma. Þetta held ég að sé ein ástæða þess hve Fjarðabyggð stendur illa fjárhagslega. Hér eru svo margir í sveitarfélaginu sem eru útsvarsgreiðendur en ekki neytendur.

Hjá mér er starfsfólk sem hefur verið hjá mér síðan 2005, en þeir eru allir enn með fjölskyldurnar sínar í heimalöndum sínum. Enginn þeirra notar þessa dýru þjónustu sem við þurfum öll samt að standa undir. Þetta hangir allt saman að mínu viti.“

Lengri útgáfa birtist í Austurglugganum. Hægt er að panta áskrift hér.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar