Einn hlýjasti júlí sem mælst hefur á Teigarhorni

Nýliðinn júlímánuður mældist sá fjórði hlýjasti í sögunni á Teigarhorni í Berufirði, elstu veðurstöð Austurlands. Mánuðurinn á höfuðborgarsvæðinu var ekki nærri jafn slæmur og látið var í veðri vaka.


Meðalhiti mánaðarins á Teigarhorni var 10,4 gráður sem þýðir að mánuðurinn er sá fjórði hlýjasti í 145 ára sögu stöðvarinnar.

Mánuðurinn var einnig í hlýrra lagi á Dalatanga, 9,4 gráður og Egilsstöðum 11,6 gráður. Athygli vekur að meðalhitinn nær hvergi þeim sama og í Reykjavík, 11,7 gráðum, en meintur kuldi þar var mikið til umfjöllunar í mánuðinum.

Hæsti meðalhitinn eystra var hins vegar á Hallormsstað, 11,83 gráður sem skilar staðnum í sjöunda sæti á landsvísu. Heitustu svæði mánaðarins voru á Norðurlandi.

Í samantekt Veðurstofu Íslands kemur fram að úrkoma hafi víðast hvar verið undir meðaltali, náði því aðeins á Austfjörðum. Í Reykjavík var úrkoman 70% af því sem hún er í meðalári.

Þar segir einnig að fyrstu sjö mánuðir ársins hafi verið sérlega hlýir. Á Egilsstöðum eru þeir í fjórða sæti frá upphafi samfelldra mælinga.

Mynd: Andrés Skúlason

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar