
Einn látinn eftir bílslys á Berufjarðarströnd
Einn er látinn og þrír slasaðir eftir árekstur tveggja bifreiða nærri bænum Krossi í norðanverðum Berufirði skömmu fyrir hádegi í í dag.Útkallið barst klukkan 11:45. Í tilkynningu lögreglu segir að tveir hafi verið í hvorum bílnum en þeir komu úr gagnstæðum áttum. Einn var úrskurðaður látinn strax á vettvangi, en aðrir fluttir með þyrlum Landhelgisgæslunnar á Landspítalann.
Strax var ljóst að umferðarslysið væri alvarlegt og útkallið því umfangsmikið: allt tiltækt lið lögreglu, tækjabifreiðar frá Djúpavogi og úr Fjarðabyggð, sjúkralið úr Fjarðabyggð og tvær þyrlur Landhelgisgæslunnar auk þess sem sjúkraflugvélar flugu austur.
Lögreglan á Austurlandi og Rannsóknarnefnd samgönguslysa rannsaka tildrög slyssins. Vettvangsrannsókn stóð fram eftir degi og á meðan var vegurinn lokaður en hann er nú opinn.
Í tilkynningunni segir að ekki verði nánari upplýsingar veittar að svo stöddu.