Einni bestu kolmunnavertíð sögunnar lokið

Skip Eskju veiddu yfir 21.000 tonn á nýafstaðinni kolmunnavertíð, sem er ein sú besta sem sögur fara af. Tvö skipa félagsins eru nú Færeyjum í slipp en rólegt verður hjá fyrirtækinu þar til makrílveiðar hefjast í júlí.

„Þetta er ein besta kolmunnavertíð sem um getur á þess tíma árs. Það hefur verið mokveiði frá því við byrjuðum,“ segir Baldur M. Einarsson, útgerðarstjóri Eskju á Eskifirði.

Skipin héldu til veiða í janúar og gekk vel en það var eftir páska sem ævintýrið byrjaði fyrir alvöru, eða eins og Baldur lýsir því að frá um 6. apríl hafi verið mokveiði í mánuð.

Skip Eskju fóru alls fimm ferðir og fengu 21.500 tonn. Aðalsteinn Jónsson og Jón Kjartansson fóru tvær ferðir hvor en Guðrún Þorkelsdóttir eina, auk þess sem hún tók aðra ferð á vegum Brims. Skip Eskju voru mest að veiðum suður af Færeyjum. Aflinn fór allur í bræðslu.

35.5000 tonn frá erlendum skipum


Alls hefur Eskja tekið á móti um 55.000 tonnum frá áramótum, þar af 35.000 tonnum frá erlendum skipum. Þau hafa mest komið með kolmunna en einnig fékkst loðna úr norsku lögsögunni. Inni í þeirri tölu eru 3.653 tonn sem færeyska skipið Christian í Grótinum kom með um miðjan febrúar og er talið vera heimsmet í kolmunnalöndun.

Austfirskar útgerðir hafa veitt kolmunna að lokinni loðnuvertíð en í ár byrjuðu veiðarnar fyrr vegna loðnubrests. Þær veiða ekki allan kvótann heldur sækja aftur í kolmunnann á haustin og freista þess að ná honum í íslensku lögsögunni.

„Við vonum að vertíðin þar verði góð. Það eru vísbendingar um það miðað við hvað það hefur verið mikið af fiskinum suður af Færeyjum og vestur af Írlandi.“

Aðalsteinn og Jón í slipp


Sumarfrí er í vinnslu Eskju í júní. Skipin Aðalsteinn Jónsson og Jón Kjartansson eru komin til Færeyja í slipp. Aðalsteinn er í hefðbundnu viðhaldi en Jón fær ítarlegri yfirhalningu.

„Við erum að breyta honum þannig við getum dælt að aftan eins og á Aðalsteini. Það verður gert núna í maí og júní. Jón var líka í slipp í mars. Þá var verið að loka dekkinu framan við brúna þannig skipið verði öruggara og nú er farið í afturhlutann,“ segir Baldur.

Makrílveiðar eru næsta verkefni skipa Eskju. Ráðgert er að þau hefji veiðar um mánaðamótin júní/júlí og komi með afla til vinnslu í byrjun júlí.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar