„Eins og björt gítarnögl á himninum“
Rannsóknaloftbelgurinn Sunrise-III vakti athygli íbúa víða á Austur- og Norðurlandi þegar hann sveif yfir svæðið í um 37 kílómetra hæð í gærkvöldi. Stjörnufræðingur segir markmiðið að rannsaka segulsvið Sólarinnar sem nýtist meðal annars til bæta fjarskipti á Jörðinni.„Ég fékk mikið af tilkynningum og fyrirspurnum í gærkvöldi. Þær byrjuðu þegar belgurinn nálgaðist Austfirðina og héldu áfram eftir því sem hann færðist norður yfir landið. Það er gaman þegar fólk tekur eftir svona fyrirbærum og ég reyni að gera mitt besta til að finna út hver þau eru.
Ég held að hann hafi sést nánast alls staðar þar sem var heiðskýrt, á svæðinu frá Akureyri suður til Djúpavogs. Ég held að flestir hafi áttað sig á að þetta væri loftbelgur út frá löguninni, hann var eins og björt gítarnögl á himni.
Ég fékk til dæmis mjög skemmtilegar myndir teknar í Þingeyjarsveit í gegnum sjónauka, sem sýna hvernig skott lafir niður úr loftbelgnum í lítinn kassa, sem er þá búnaðurinn,“ segir Sævar Helgi Bragason, sem heldur úti Stjörnufræðivefnum.
Rannsaka segulsvið sólarinnar
Loftbelgurinn ber nafnið Sunrise-III. Honum var skotið á loft frá Kiruna í Svíþjóð seinni part miðvikudags og er ætlað að fljúga til Kanada á tæpri viku. Hann kom upp að Austurströnd landsins á Víknaslóðum upp úr kvöldmat í gær, sveif þaðan norðvestur fyrir Vopnafjörð en beygði þaðan til suðvesturs og sveif í boga yfir mitt landið og út yfir Snæfellsnes.
Að honum standa vísindastofnanir í Bandaríkjunum, Þýskalandi, Spáni og Japan. Sólin speglaðist í hvítum belgnum sem svífur í 37 km hæð og sást hann því vel víða að í gærkvöldi. Belgurinn sjálfur er á stærð við fótboltavöll og getur borið á fjórða tonn af farmi. Flugið er aðeins einn áfanginn í Sunrise-III verkefninu sem staðið hefur í hátt í 20 ár.
„Hann ber sólarsjónauka sem tekur myndir af sólinni. Það er sérstaklega verið að reyna að kanna segulsviðið og hið útfjólubláa ljós. Það er í raun sterkt segulsvið sem er ekki sýnilegt en orkuríkara en sýnilega ljósið. Til að skilja virkni þess þarf að skoða það.
Ózonlagið gleypir útfjólubláu geislana að mestu. Til að skoða þá þarf því annað hvort að senda rannsóknafar út í geiminn, sem er mjög dýrt, eða notast við loftbelgi eins og þennan sem komast upp fyrir lagið.
Geislarnir verða til þegar gas sólarinnar ferðast eftir segulsviði hennar á miklum hraða. Gasið á það til að slitna á þessari ferð og þá verða sólgos. Þau beinast stundum í átt að jörðinni og þá verður stormasamt í geiminum sem getur haft áhrif á fjarskipti og rafveitukerfi á Jörðinni, eða myndað hin hrífandi norðurljós.“
Von á einum enn
Sunrise-III er þriðji loftbelgurinn af fjórum sem sendur er frá Kiruna til Kanada í sumar. Sá fyrsti var á ferðinni um mánaðamótin maí/júní. Sá næstu fór af stað á mánudag og ber heitið XL-Calibur. Systurbelgur hans sveif framhjá Íslandi fyrir tveimur árum og sást að sögn Sævars Helga frá landinu.
Fjórði belgurinn, BOOMS, er tilbúinn til flugs. Sævar Helgi segir viðbúið að hann sjáist víða af landinu þar sem heiðskýrt verður, jafnvel þótt leið hans liggi ekki beint yfir landið.